Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kosningar í Lettlandi í skugga Úkraínustríðsins

epa10214084 Soldiers of the enhanced Forward Presence Battle Group Latvia and NATO allies participate in the military exercise 'Silver Arrow 2022' in Adazi, Latvia, 29 September. The multinational NATO Exercise 'Silver Arrow 2022' is taking place from 19 to 30 September in the Camp Adazi training area in Latvia with the participation of around 4,200 troops from 17 NATO and allied countries.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
Ríflega 4.000 manna fjölþjóðlegri heræfingu á vegum NATO lýkur í Lettlandi daginn fyrir þingkosningar í landinu, sem litast mjög af innrás Rússa í Úkraínu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Lettar ganga til þingkosninga á morgun, laugardag, í skugga innrásar Rússa í Úkraínu. Talið er líklegt að flokkur forsætisráðherrans Krisjanis Karins, mið-hægriflokkurinn Samstaða (Vienotība), auki fylgi sitt verulega á kostnað popúlískra flokka á hægri vængnum, Íhaldsflokksins og jafnaðarmanna.

Stóraukinn stuðningur við NATO- og ESB-aðild 

Karins, sem er fæddur, uppalinn og menntaður í Bandaríkjunum, er einarður stuðningsmaður aðildar Lettlands að NATO og Evrópusambandinu. Hvort tveggja nýtur stóraukins fylgis í landinu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Jafnaðarmannaflokkurinn Eindrægni (Saskaņa), stærsti flokkurinn á lettneska þinginu, líður fyrir það að hafa jafnan notið mikils stuðnings meðal rússneskumælandi Letta.

Karins líklegastur til sigurs

„Innrás Rússa í Úkraínu hjálpar Karins að tryggja sér atkvæði kjósenda í Lettlandi, því á slíkum tímum fylkir fólk sér gjarnan um þjóðfánann,“ segir stjórnmálafræðingurinn Marcis Krastins í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hann segir líklegast að Karins fari með sigur af hólmi, en mikið velti þó á því, hversu margir smáflokkanna sem stutt hafa stjórn hans komist yfir fimm prósenta þröskuldinn í kosningum morgundagsins.

Innrásin í Úkraínu yfir og allt um kring

Úkraínustríðið og málefni því tengd, svo sem hækkandi framfærslukostnaður, orkuverð og krafan um að Lettland verði óháð Rússum um orku, hafa verið helstu kosningamálin.

„Kjósendur eru að leita að hæfum leiðtogum sem eru færir um að leysa úr þessum málum,“ segir Krastins.

Í frétt AFP segir að fjöldi smáflokka muni bítast um að koma fulltrúum á hið 100 manna þing Lettlands. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Samstaða Karins verði stærsti flokkurinn, með 13,3 prósent atkvæða.

Jafnaðarmenn tapa bæði andstæðingum og fylgjendum Rússa

Jafnaðarmannaflokkurinn Eindrægni, sem fékk rúm 20 prósent atkvæða í síðustu kosningum, á á hættu að falla af þingi gangi nýjasta könnunin eftir. Í henni sagðist aðeins 5.1 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn.

Meðal lettneskumælandi Letta liður flokkurinn fyrir vinsældir hans meðal rússneskumælandi landa þeirra í gegnum tíðina. Og rússneskumælandi Lettar yfirgefa flokkinn fyrir afstöðu hans til Rússa nú.

Forysta flokksins hefur fordæmt innrásina í Úkraínu, segir í frétt AFP, en ekki haft jafn hátt um ætlaða stríðsglæpi og óhæfuverk innrásarhersins og margir aðrir.

Stór hluti rússneskumælandi kjósenda flokksins hefur snúið sér að tveimur nýjum flokkum, segir í frétt AFP. Annar þeirra lýsir opinskátt yfir stuðningi við málstað stjórnvalda í Kreml, og hinn er hliðhollur Rússlandi, en ekki með jafn afgerandi hætti. 

Fyrstu tölur síðdegis á morgun

Kjörstaðir Í Lettlandi verða opnaðir klukkan sjö á laugardagsmorgun að staðartíma, eða fjögur aðfaranótt laugardags að íslenskum tíma, og þeim verður lokað klukkan átta um kvöldið - eða fimm síðdegis. Búist er við fyrstu útgönguspám skömmu síðar.