Fór í 12 frjósemismeðferðir og varð loks ólétt 42 ára

Mynd: RÚV / RÚV

Fór í 12 frjósemismeðferðir og varð loks ólétt 42 ára

30.09.2022 - 10:26

Höfundar

„Það er ekki alltaf gefið og það er ekki alltaf þannig að það sé einföld leið eins og hjá mörgum, og í okkar tilfelli var það ekki,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, um barneignir. „Þetta var grýttur vegur. Við fórum í gegnum 12 meðferðir áður en hún kemur í heiminn.“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, hefur lifað og hrærst í heimi sveitastjórnarmála í rúm 20 ár. Hún var bæjarstjóri í Vesturbyggð á árunum 2010-2018 og kynntist þar eiginmanni sínum, Hafþóri Jónssyni. Þau áttuðu sig fljótt á því að þau vildu verða hjón og eignast saman börn, en það gekk ekki vandkvæðalaust fyrir sig. „Svo verður þetta allt frekar dramatískt, öll þessi meðganga mín var mjög erfið.“ Ásthildur ræddi við Segðu mér á Rás 1 um fjölskylduna og fjölskyldufyrirtækið sem hún segir stjórnmálin vera.  

Stjórnmál hálfgert fjölskyldufyrirtæki 

Stjórnmál hafa fylgt Ásthildi frá blautu barnsbeini. „Öll fjölskyldan er þátttakandi þegar að einn aðili er í stjórnmálum. Þetta verður hálfgert fjölskyldufyrirtæki.“ Faðir hennar, Sturla Böðvarsson, er fyrrverandi alþingismaður. Hann var samgönguráðherra, sinnti starfi forseta Alþingis og var þar á undan bæjarstjóri í Stykkishólmi, þar sem Ásthildur ólst upp. Ásthildur hefur sjálf verið viðriðin sveitastjórnarmál í 22 ár en hún var bæjarstjóri í Vesturbyggð árin 2010-2018 og hefur verið bæjarstjóri á Akureyri frá 2018. „Ég segi alltaf, þetta er skemmtilegasta starf í heimi en maður má heldur ekki daga uppi í því.“ 

Ásthildur segir að uppeldi á heimili stjórnmálamanns hafi kennt henni að taka hlutunum ekki of hátíðlega. „Auðvitað verður maður aðeins með þykkari skráp og brynju en þeir sem eru ekki aldir upp á heimili stjórnmálamanns,“ segir hún. „Við urðum öll mjög fegin þegar að hann hætti í pólitík.“ Faðir Ásthildar var mjög farsæll stjórnmálamaður en hún segir að þrátt fyrir það hafi oft komið erfið tímabil. „Við tókum gagnrýni á hann alveg ofsalega mikið inn á okkur. Hann var auðvitað harður af sér en ég held að aðstandendur taki gagnrýni á persónuna miklu verr heldur en þeir sem verða fyrir henni.“ 

Faðir hennar var stjórnmálamaður fyrir tíma samfélagsmiðla, nokkuð sem Ásthildur er þakklát fyrir. Hún forðast sjálf að lesa skrif um sjálfa sig á netinu. „Ég reyni að lesa sem minnst, mér finnst það óþægilegt.“ Hún segir að fólk láti ýmislegt flakka á netinu sem sé algjör óþarfi fyrir sig að velta sér upp úr. Hún segir eðlilegt að hafa skoðanir á bæjarstjóranum og hvað hann sé að gera. „Það væri nú eitthvað skrítið, ég myndi nú ekki gera neitt eða hefði ekkert að segja og hefði ekkert fram að færa og væri fullkomlega ósýnileg ef að fólk hefði ekki skoðanir á mér.“ 

Ópólitískur bæjarstjóri af Sjálfstæðisflokksættum 

Ásthildur er komin af miklum Sjálfstæðisflokksættum og hefur sjálf starfað með Sjálfstæðisflokknum síðan hún var barn. Ráðning hennar sem bæjarstjóri Akureyrar er þó ópólitísk. „Ég var ráðin af Framsóknarmönnum, Samfylkingunni og L-listanum, sem er bæjarlistinn hérna, og það veitti mér ákveðið frelsi. Mér fannst það bara þægilegt.“ Það liggur vel fyrir henni að vinna með fólki og hún vill láta til sín taka í þágu samfélagsins. „Vinna í þágu samfélagsins, gera það besta fyrir samfélagið, vinna að hagsmunagæslu fyrir samfélagið. Þetta snýst um það.“ 

Ásthildur var bæjarstjóri í Vesturbyggð á árunum 2010-2018 sem var mikill uppgangstími. Það voru miklir fjárhagslegir erfiðleikar í kjölfar hrunsins sem þurfti að takast á við og mikil þörf á viðhaldi og fjárfestingu í félagslegum innviðum. „Þarna lærði maður að verða bæjarstjóri á einu bretti.“ Hún segir frábrugðið að starfa sem bæjarstjóri í Vesturbyggð og á Akureyri. „Þegar að ég var fyrir vestan þá gerði ég mjög mikið sjálf,“ segir hún. „Síðan kom ég hingað og fattaði að ég var með fullt fullt af fólki sem var að vinna fyrir mig.“ Það tók smá tíma fyrir hana að aðlagast breyttum aðstæðum. „Þetta tók alveg smá tíma, að venja mig við það að mitt hlutverk var að vera framkvæmdastjóri yfir þessum hópi.“ 

Varð loks ólétt eftir 12 meðferðir 

Ásthildur hefur alltaf sinnt skyldum sínum í þágu samfélagsins af heilum hug og jafnvel sett vinnu sína ofar eigin heilsu. Ásthildur eignaðist dóttur sína 42 ára og var í hááhættumeðgöngu. Þrátt fyrir það dró hún ekkert undan í vinnu sinni sem bæjarstjóri, sem að endingu kom niður á heilsu hennar.  

„Við kynnumst frekar seint hjónin. Maðurinn minn, Hafþór Jónsson, er Patreksfirðingur,“ segir Ásthildur. Þegar hún fluttist vestur og tók við embætti bæjarstjóra var hún einhleyp en þegar þau Hafþór kynntust áttuðu þau sig fljótt á því að þau vildu verða hjón og vildu eignast saman börn. „Það er ekki alltaf gefið og það er ekki alltaf þannig að það sé einföld leið eins og hjá mörgum, og í okkar tilfelli var það ekki.“ 

Ásthildur og Hafþór eiga saman dótturina Lilju Sigríði, en fyrir átti Hafþór soninn Daníel Jón. „Þetta var grýttur vegur. Við fórum í gegnum 12 meðferðir áður en að hún kemur í heiminn,“ útskýrir Ásthildur. Þau reyndu 10 sinnum á Íslandi en heyrðu svo af stofu í Grikklandi sem hafði hjálpað pörum með góðum árangri. „Við hugsum bara - við höfum engu að tapa.“  

„Hættu þessu væli“ 

Þau hjónin ferðuðust til Aþenu í janúar 2016. „Og í stuttu máli, þá eftir nokkrar mínútur hjá henni Penny, töfrakonunni eins og ég kalla hana, þá segir hún þetta leg getur aldrei haldið barni.“ Ásthildur fór í litla aðgerð og kom svo aftur stuttu síðar til Penny. „Ég kem stuttu seinna aftur í meðferð og næ að verða ófrísk en næ ekki að halda.“  

Eftir að hafa gengið í gegnum allar þessar meðferðir var Ásthildur að eigin sögn mjög aum og treysti sér varla til að ganga í gegnum þetta aftur. Þau hjónin ákváðu að gera eina tilraun í viðbót. „Mér fannst þetta vera svona vendipunktur hjá mér þegar við vorum að tala saman og ég er ofsalega aum og ég er að segja við Haffa, ég treysti mér ekki í meira. Ég get ekki gengið í gegnum þetta aftur.“ Haffi sagði við Penny, hjá frjósemismeðferðarstofunni, að Ásthildur væri komin á fremsta hlunn. „Þá horfir hún á okkur og segir, hættu þessu væli.“ Penny sagðist þora að veðja húsinu sínu upp á að Ásthildi myndi takast að verða ólétt.  

„Þetta verður til þess að ég bara já ókei. Nú er sjálfsvorkunn og eitthvað vesen, það er frá.“ Og þetta gekk eftir. „Ég vissi það að það væri að koma barn, ég bara vissi það. Hálfum mánuði seinna fór ég og keypti prufu og ég bara vissi að ég væri ófrísk.“ Penny hafði reynst sannspá og þau fengu þær fregnir að lítil stúlka væri á leiðinni. „Það var svo dásamlegt að þegar fósturvísirinn var settur upp, það var á afmælisdegi tengdamóður minnar og við ákváðum það strax að ef þetta yrði stúlka þá yrði hún látin heita Lilja,“ í höfuðið á tengdamóðurinni. 

Dramatísk meðganga, veikindi og andlát 

„Svo verður þetta allt frekar dramatískt, öll þessi meðganga mín var mjög erfið,“ segir Ásthildur. Hún var 42 ára þegar Lilja Sigríður kom í heiminn. „Öldruð frumbyrja stóð í læknaskýrslum,“ segir hún kímin.  

Ásthildur hafði beðið lengi eftir að verða ólétt og leið mjög vel þrátt fyrir að vera í hááhættumeðgöngu. Móðir Ásthildar hafði veikst í þrígang af meðgöngueitrun og Ásthildur því í áhættuhópi. Hún sló þó ekki slöku við þegar að kom að vinnu, þvert á móti. Þegar hún var gengin um sex mánuði fór hún til Svíþjóðar og Noregs á námskeið og vinabæjarmót. „Ég hef þessum skyldum að gegna að sjálfsögðu, þeir eru að bíða eftir mér.“ Ástvinir hennar hvöttu Ásthildi til að slaka á vinnunni en hún lét ekki segjast. „Ég segi stundum að maður hafi verið með einhverja hálfgerða megalómaníu, þetta var algjör bilun.“  

Ásthildur lagði af stað í ferðalagið en var þá orðin lasin. „Ég hringi í Haffa og segi viltu koma út, mér líður svo illa, viltu koma út og vera hjá mér. Og hann gerir það.“ Í Noregi segist hún hafa verið orðin hundveik. „Ég var sett í stopp og læknarnir segja þú mátt ekki vinna lengur, en ég var samt að vinna.“ Áfall dundi á fjölskylduna en tengdamóðir Ásthildar féll frá. „Þetta gerist einhvern veginn allt. Í jarðaförinni hennar er ég orðin mjög veik og þá fer ég suður.“ 

Ásthildur hafði ekki mátt halda til höfuðborgarinnar mikið seinna en hún gerði. „Svo fæddist hún nokkrum dögum seinna. Þetta gekk allt svo hratt fyrir sig að Haffi náði ekki að vera viðstaddur.“ Dóttir þeirra fæddist tveim mánuðum fyrir tímann en var og er heilbrigð. „Hún fæddist fullkomin, hún var bara ofboðslega lítil.“ Lilju Sigríði fékk Ásthildur í fangið rúmum sólarhring eftir fæðinguna og segir það hafa verið ótrúlega stund.  

Æðruleysi og þrautseigja lykillinn 

Það var hjónunum gríðarlega þungbært að ganga í gegnum 12 frjósemismeðferðir. „Við segjum það að við getum gengið í gegnum allt, við erum búin að ganga í gegnum þetta, þá getum við gengið í gegnum allt.“ Hún segir þetta hafa hert þau rosalega. „Stundum kannski held ég að maður verði of harður af sér, en þetta herðir mann.“ 

Það krefst mikillar þrautseigju að ganga í gegnum þetta ferli aftur og aftur og þar var æðruleysið þeim ómissandi. „Það kemur mjög sterkt inn og það er mjög hollt fyrir mig, af því að ég hef verið ofsalega óþolinmóð manneskja, og er það, en maður lærir æðruleysi í svona aðstæðum.“  

Langar stundum rosalega að verða húsmóðir 

Ásthildur brennur fyrir starfi sínu sem bæjarstjóri og segist alltaf vera í vinnunni. Þegar að hún vill kúpla sig út er það helst á bökkum laxveiðiáa eða í skíðabrekkunni þar sem það tekst. „Eða í garðinum að slá túnið. Ef að ég hef átt mjög erfiðan dag þá slæ ég túnið.“ 

Hún segist þó alltaf svara í símann. „Þetta er hluti af skyldunni, maður ber þessa ábyrgð. Maður er bæjarstjóri, þú ert ekkert að hlaupa í burtu frá því.“ „Ég er kannski bara þannig innréttuð að þetta er mitt hlutverk og ég bara að sinna því.“ 

Ásthildur starfaði tvö kjörtímabil sem bæjarstjóri fyrir vestan og hefur nú verið ráðin í annað kjörtímabil á Akureyri. „Ég hef sagt að tvö kjörtímabil er bara alveg ágætt. Ég held það sé ekki hollt, hvorki fyrir samfélag né manneskju, að vera of lengi á sama stað.“ Það er því ljóst að það fer að síga á seinni hluta starfsins sem bæjarstjóri á Akureyri og Ásthildur er spennt að sjá hvað tekur við.  

„Mig langar stundum alveg rosalega rosalega mikið til að vera húsmóðir. Ég hef oft rætt það við manninn minn hvort ég megi ekki bara verða húsmóðir og honum finnst það alveg ofsalega vond hugmynd,“ segir hún hlæjandi. „Það er eitthvað skemmtilegt sem tekur við. Þetta er allt lífstímabil. Kafli í lífinu, kafli í lærdómsbankann, svo gerir maður bara eitthvað annað.“ 

Rætt var við Ásthildi Sturludóttur í Segðu mér á Rás 1. Hlýða má á þátinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

 

Tengdar fréttir

Norðurland

„Bara eins og gott hjónaband sem leysir vandamálin“

Norðurland

Hefur áhuga á að vera áfram bæjarstjóri á Akureyri

Innlent

Biðlar til borgarbúa um að koma ekki út á land

Akureyri

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri