Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Öllu flugi beint frá Keflavík vegna sprengjuhótunar

Mynd með færslu
Vélin lenti í Keflavík skömmu eftir kl. 23 á miðvikudagskvöld og staðnæmdist heldur nær brautamótunum en fram kemur á þessari mynd. Mynd: Aðsend - FlightRadar24
Öllu flugi hefur verið beint frá Keflavíkurfluvelli til annarra flugvalla á landinu og erlendis vegna komu flutningavélar á vegum UPS, sem var á leið frá Þýskalandi til Bandaríkjanna þegar sprengjuhótun barst. Var vélinni þá beint til Keflavíkur þar sem hún lenti á tólfta tímanum í kvöld. Keflavíkurflugvöllur er lokaður fyrir allri flugumferð um óákveðinn tíma vegna þessa.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur vélin skammt frá brautamótum á vellinum, þar sem lögregla er með töluverðan viðbúnað. Vélin er af gerðinni Boeing 747-8, en þær vélar eru með stærstu flutningaþotum sem framleiddar eru.  Hún var á leið frá Köln í Þýskalandi til Louisville í Kentucky þegar henni var snúið við, um 250 kílómetra vest-suðvestur af Reykjanesskaga.

Þotum beint til Egilsstaða, Akureyrar, Reykjavíkur og Glasgow

Tvær farþegaþotur á leið til Keflavíkur, vél Wizz-air frá Varsjá og vél Transavia á leið frá París, lentu á Egilsstöðum, en vél PlayAir frá Madríd var beint til Reykjavíkur. Samkvæmt heimildum fréttastofu bað hún um heimild til að snúa frekar til Akureyrar, skömmu áður en hún átti að lenda á Reykjavíkurflugvelli.

Annarri vél PlayAir, sem var á leið heim frá Barcelona, var snúið við og send til Glasgow, og fraktflugvél á vegum DHL, sem átti að lenda í Keflavík, lenti í Reykjavík.

Flugi til Varsjár og Frankfurt aflýst

Þá var kvöldflugi Wizz Air til Varsjár og Lufthansa til Frankfurt aflýst, en vélar beggja félaga áttu að fara í loftið á fyrsta tímanum í nótt. Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu farþegar Lufthansavélarinnar tilkynningu um að flugi þeirra hefði verið frestað til morguns en þeir voru ekki upplýstir um ástæður þess. 

Fréttin hefur verið uppfærð og verður uppfærð í takt við nýjar upplýsingar. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV