Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Leggur aftur fram frumvarp um bann við olíuleit

Mynd: RÚV / RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra segir að boðað frumvarp um bann við olíuleit í íslenskri efnahagslögsögu sé í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Hann telur mikilvægara að horfa til grænna lausna í orkumálum.

Bannið nær ekki einungis til olíuleitar heldur einnig til rannsókna og olíuvinnslu innan íslenskrar efnahagslögsögu.  Umhverfisráðherra lagði fram svipað frumvarp í vor en það komst ekki á dagskrá Alþingis. Ráðherra segir frumvarpið í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Er skynsamlegt að vera að loka á þennan valkost þegar það stefnir í meiriháttar orkukrísu í Evrópu?

„Þessir valkostir leysa ekki þá stöðu sem er uppi núna. Það eru ekki ár heldur áratugir í þá. En okkur vantar hins vegar orku og við erum með orku. Við höfum þekkingu á að nýta orkuna og þá er ég að vísa í jarðvarmann, vatnsaflið og svo getum við líka nýtt fleiri þætt sem við munum örugglega gera með einhverjum hætti en reyna gera það í eins góðri sátt eins og mögulegt er,“ segir Guðlaugur Þór.

Saga olíuleitar hér við land er ekki löng og hefur fyrst og fremst beinst að hinu svokallaða Drekasvæði norðaustur af Íslandi. Fyrstu leyfin voru gefin út 2012 og í heildina voru það þrjú fyrirtæki, í íslenskri og erlendri eigu, sem fengu slíkt leyfi. Öll hafa þau skilað inn leyfunum, það síðasta árið 2018.

„En aðalatriðið málsins er að þegar menn eru að gagnrýna þessa hluti, og það er fullkomlega eðlilegt, þá eru menn að vísa til þess að það vantar orku. En hana vantar hratt og þær þjóðir sem við erum að bera okkur saman við eru að gera það, ekki bara út af loftslagsmálum heldur líka vegna þess að þeir eru að reyna að gera sig óháða Rússum. Þá eru menn að leita að einhverju sem hægt er að nota núna eða á allra næstu árum og það er það sem við erum að gera líka. Þess vegna er áherslan fyrst og fremst á grænu íslensku orkuna,“ segir Guðlaugur Þór.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV