Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búið að opna fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll

29.09.2022 - 04:29
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Flight Radar 24
Keflavíkurflugvöllur hefur verið opnaður fyrir flugumferð að nýju, eftir að hafa verið lokaður í um það bil fjórar klukkustundir vegna sprengjuhótunar um borð í þotu bandaríska flutningafélagsins UPS, sem lenti á vellinum á tólfta tímanum í gærkvöld. Viðbragðsaðilar voru enn að á fimmta tímanum í nótt, þegar þetta er skrifað en engin sprengja hefur fundist í vélinni.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum á þriðja tímanum í nótt segir að tilkynning hafi borist um sprengjuhótunina klukkan 22.47 í gærkvöld en engin sprengja hafi fundist. Aðgerðir standi enn yfir en til standi að opna flugvöllinn klukkan 03.00.

Sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar voru þá enn að störfum í vélinni samkvæmt fyrirskrifuðu verklagi og unnið í samræmi við sérstaka neyðaráætlun vegna flugverndar fyrir Keflavíkurflugvöll. 

Vélar sem snúið var frá Keflavík í gærkvöld streyma þangað í nótt

Vél Play Air frá Madríd sem flaug til Akureyrar vegna þessa lenti í Keflavík um fjögurleytið í nótt og vél TransAvia frá París, sem beint var til Egilsstaða af sömu sökum, er væntanleg þangað upp úr hálf fimm. Búið var að tilkynna farþegum hennar að flogið yrði með þá aftur til Parísar og var flugtak í aðsigi þegar tilkynning barst um opnun Keflavíkurflugvallar.

Þotu Wizz Air frá Varsjá var líka snúið til Egilsstaða og er hún einnig á leið til Keflavíkur og sömu sögu er að segja um vél Play Air frá Barcelona, sem snúið var til Glasgow í Skotlandi.

Mikill viðbúnaður

Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunarinnar í vél UPS, Boeing 747-8, einni stærstu flutningaþotu sem framleidd er. Hún var var á leið frá Köln í Þýskalandi til Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum, um 250 - 300 kílómetra vestsuðvestur af Reykjanesskaga, þegar hótunin barst.

Var henni þá beint til Keflavíkur þar sem hún lenti á tólfta tímanum í gærkvöld og var Keflavíkurflugvelli lokað fyrir allri flugumferð á meðan vélin var skoðuð og málið rannsakað.

Öllum vélum á leið til Keflavíkur var beint annað og fyrirhuguðum flugferðum þaðan ýmist aflýst eða frestað fram eftir nóttu. 

 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV