Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ættingi ríkislögreglustjóra tengist hryðjuverkarannsókn

Nafn ættingja Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra hefur komið upp við rannsókn á meintri skipulagningu hryðjuverka. Af þeim sökum hefur ríkislögreglustjóri sagt sig frá rannsókn málsins og falið embætti héraðssaksóknara. Þetta kom fram í máli Sveins Ingibergs Magnússonar, yfirlögregluþjóns hjá héraðssaksóknara, á fréttamannafundi lögreglu síðdegis.

Ekki kom fram hver ættinginn er, né hvernig hann tengist málinu. Enginn fulltrúi ríkislögreglustjóra var á fundinum.

Lögregla hefur farið í 17 húsleitir vegna málsins og lagt hald á 60 muni með rafrænum gögnum, þ.e. tölvur og síma. Gögn úr þeim hafa verið send erlendum lögregluliðum, bæði á Norðurlöndum og hjá Europol. Lögregla vill þó enn ekki gefa neitt upp um grun um tengsl mannanna við tilteknar hreyfingar öfgahópa, svo sem norræna þjóðernissinna.

Meðal þess sem lögregla rannsakar eru samskipti mannanna við skoðanasystkini sín á erlendum spjallsvæðum.

Segja ekki hve langt skipulagning var komin

Tveir eru í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar. Talið er að þeir hafi þrívíddarprentað skotvopn sem mögulega hafi átt að nota við að fremja fjöldamorð hér á landi. Þeir sitja báðir í gæsluvarðhaldi í eina viku til viðbótar hið minnsta.

Lögregla vildi ekki svara því hve langt skipulagning hryðjuverkanna á að hafa verið komin. Þá fengust ekki skýr svör við því hvers vegna ekki var farið fram á lengra gæsluvarðhald og Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn gat ekki sagt til um hvort almenningi stafaði ógn af mönnunum færi svo að þeir losnuðu úr varðhaldi. 

Í húsleitum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu hefur lögregla, auk síma og tölva, lagt hald á tugi skotvopna og höfðu sum þeirra verið sett saman með þrívíddarprentuðum íhlutum. 

Sumum vopnanna hafði verið breytt þannig að þau yrðu hálfsjálfvirk, en Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir slík vopn mun hættulegri en svokölluð „eins skots vopn“.

Lögregla hvetur þá sem hafa vitneskju um þrívíddarprentuð vopn í umferð að láta lögreglu vita.

Fleiri handteknir

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði á fundinum að lögregla hefði handtekið fleiri menn vegna málsins síðustu daga án þess að þeir væru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Grímur var spurður hvers vegna hættuástand vegna hryðjuverka væri enn metið lágt fyrst lögregla hefur ekki útilokað að fleiri en mennirnir í gæsluvarðhaldi tengist málinu. Svaraði hann því til að ekki væri hægt að fullyrða með afgerandi hætti að ekki stafaði ógn af þeim, þótt ekki væri talin ástæða til að hækka opinbert hættuástand.