Sprengjuhótunin barst klukkan tæplega ellefu í gærkvöld og var Keflavíkurflugvelli lokað í um það bil fjórar klukkustundir. Vélin sem er af gerðinni Boeing 747-8 var á leið frá Köln í Þýskalandi til Louisville í Kentucky í Bandaríkjunum, um 250 - 300 kílómetra vestsuðvestur af Reykjanesskaga, þegar hótunin barst. Vélin er fraktflugvél og því engir farþegar um borð.
- Sjá einnig: Búið að opna fyrir umferð um Keflavíkurflugvöll
Keflavíkurflugvöllur var opnaður að nýju um klukkan þrjú í nótt. Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, komst flugumferð í eðlilegt horf eftir að völlurinn var opnaður og flug í morgun verið samkvæmt áætlun.
Sigurður Hrafn segir óljóst hvenær störfum ljúki um borð í vélinni sem hefur verið dregin afsíðis á Keflavíkurflugvelli þar sem skoðunin fer fram. „Það er bara verið að vinna eftir ákveðnum verkferlum sem sprengjudeildin sér um og það eru svosem engin tímamörk á því. Það er bara farið eftir verkferlum.“
Geturðu eitthvað sagt mér hvers eðlis þessi sprengjuhótun var? „Nei ég get það ekki.“
Uppfært klukkan 08:47
Aðgerðum lögreglu vegna sprengjuhótunarinnar er lokið, að sögn lögreglustjórans á Suðurnesjum.
Tilkynningin sem barst lögreglu var á þann veg að ákveðinn pakki sem var um borð í vélinni innihéldi sprengju. Sprengjusérfræðingar sérsveitar ríkislögreglustjóra og sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar fundu pakkann og tóku hann til skoðunar. Í ljós kom að hann innihélt „torkennilega hluti.“
Við nánari skoðun kom í ljós að í pakkanum voru flugeldar og eftirlíkingar af skotvopnum.
Í tilkynningu frá lögreglustjóranum segir að enginn hafi verið í hættu á meðan aðgerðum stóð og að verkefnið hafi gengið vel.