Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja að hætt verði við að senda börn til Grikklands

Börn að leika sér í búðum fyrir hælisleitendur í Grikklandi.
 Mynd: EPA
Tvö börn ásamt fjölskyldu eru meðal þeirra hælisleitenda sem íslensk stjórnvöld ætla að endursenda til Grikklands. Rauði krossinn kallar eftir að mannréttindi barnanna séu virt og hætt sé við að senda fólkið til baka.

Íslensk stjórnvöld hyggjast senda um fjörutíu hælisleitendur til Grikklands á næstu vikum að sögn Áslaugar Björnsdóttur, lögfræðings hjá Rauða krossi Íslands sem ásamt öðrum félagasamtökum gagnrýnir þá ákvörðun og kallar eftir að hún sé tekin til baka.

„Það er komin verkbeiðni frá Útlendingastofnun til ríkislögreglustjóra og meðal þessara fjörutíu einstaklinga eru tvö börn.“ 

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallaði um slæmar aðstæður fólks á flótta í Grikklandi fyrir tveimur árum. Áslaug undirstrikar hvernig komið sé fyrir flóttabörnum þar, en stór hluti þeirra barna sem koma hingað til lands eftir að hafa dvalið í Grikklandi glími við heilsufarsvandamál sem megi meðal annars rekja til óviðunandi aðstæðna þar í landi.

„Þau hafa ekki sama aðgengi og grísk börn að menntun, þau eru aðskilin frá grískum börnum í skólanum. Svo er líka mjög erfitt fyrir flóttafólk og fjölskyldur að fá húsnæði og atvinnu. Bæði vegna kynþáttafordóma og lítils framboðs fyrir þau. Þau fá svo enga framfærslu frá yfirvöldum, þau geta ómögulega framfleytt sér.“ 

Kalla eftir því að stjórnvöld hafi hagsmuni barna að leiðarljósi

Ekki er vitað hvaðan fólkið kemur upprunalega eða hve lengi það hefur verið á Íslandi. Rauði krossinn hefur ítrekað kallað eftir að stjórnvöld hætti endursendingum til Grikklands. Áslaug segir skilaboðin hin sömu nú sem áður. 

„Bara að íslensk stjórnvöld fylgi þeim alþjóðasamningum sem þau eru bundin af og íslenskum lögum um að hafa það sem barni er fyrir bestu í forgangi alltaf og að hagsmunir þess séu hafði að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.“