Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tveggja tíma ræma sýnd við Rauðagerðisréttarhöld

Mynd með færslu
Frá aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Á myndinni er Murat Selivrada ásamt lögmanni sínum Geir Gestssyni. Mynd: Magnús Geir Eyjólfsson
Pylsukaup í Borgarnesi, hádegisfundur á veitingastað í Garðabæ, faðmlög utan við almenningssalerni, dópkaup við Prikið og eilíft hringsól bifreiða um austurbæ Reykjavíkur voru meðal þess sem saksóknarar buðu upp á í tveggja tíma langri „kvikmynd“ sem sýnd var við upphaf aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu svokallaða í Landsrétti í morgun.

Þar hafði öllum klippum ákæruvaldsins úr hinum ýmsu öryggismyndavélum verið skeytt saman svo úr varð stæðileg kvikmynd, svarthvít og hljóðlaus, ef frá er talinn sönglandi lögregluþjónn.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari tók að sér að lýsa því sem fyrir augu bar. Þakklátt verk enda erfitt, meira að segja fyrir dómara, að halda athyglinni gegnum heillangar klippur af bílum að bakka í stæði og mönnum að sniglast um í myrkum húsasundum án augljóss tilgangs. 

En allt skipti þetta máli og var liður í viðleitni ákæruvaldsins til að sýna fram á hlut meintra samverkamanna í morðinu á Armando Beqirai, sem ráðinn var bani utan við heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík 13. febrúar í fyrra. 

Fyrir liggur að maður að nafni Ang­jel­in Sterka­j varð Armando að bana. Hann játaði á sig verknaðinn við skýrslutöku hjá lögreglu strax fjórum dögum eftir manndrápið en bar fyrir sig sjálfsvörn og sagðist hafa verið einn að verki. Hann var í fyrra dæmdur í 16 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákæruvaldið áfrýjaði dómnum og fer fram á að hann verði þyngdur í 18-20 ár. Fallist dómurinn á það yrði þetta einn þyngsti dómur í íslenskri réttarsögu.

Farið fram á fimm ára dóm yfir meðreiðarsveinum

Helsta keppikefli ákæruvaldsins er þó vafalaust að fá sýknudómi yfir þremur öðrum sakborningum snúið. Það eru þau Claudia Sofia Coel­ho Car­val­ho, kærasta Angjelins, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi.

Í ákæru segir að þau hafi ýmist vaktað bifreiðar fórnarlambsins, sent skilaboð sín á milli, ekið Angjelin að heimili fórnarlambsins og frá því, verið með honum þar sem hann losaði sig við morðvopnið og þau hljóti því að hafa vitað af ódæðinu án þess að gera lögreglu viðvart. 

Armando Beqirai var sem fyrr segir ráðinn bani utan við heimili sitt þegar hann steig út úr bíl sínum eftir að hafa keyrt heim úr vinnu. Fyrir liggja samskipti fjórmenninganna í aðdraganda manndrápsins, auk þess sem Claudia og Shpetim fylgdust með bíl Armando og létu vita þegar hann nálgaðist heimilið.

Þremenningarnir voru hins vegar sýknaðir í héraðsdómi þar sem dómari taldi að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á það að þremenningarnir hefðu mátt vita hvað Angjelin hafði í hyggju.

Næstu daga reynir ákæruvaldið að sannfæra landsréttardómara um að svo hafi verið. Farið er fram á að lágmarki fimm ára fangelsi yfir þremenningunum fyrir aðild að morði.

Uppfært 12:58 Að sýningu myndbandsins lokinni var spiluð upptaka af skýrslutöku Angjelins fyrir héraðsdómi, en hann kaus að vera ekki viðstaddur réttarhöldin í dag. Síðar í dag og á morgun verða síðan skýrslutökur yfir þremenningunum. Á föstudag verður munnlegur málflutningur og þá ætti aðalmeðferðinni að ljúka.