„Það er eins og fellibylur hafi farið yfir skóginn“

Mynd: Íris Birgisdóttir / Aðsent
Aldrei hafa orðið eins miklar skemmdir á sjötíu ára gömlum skógi við Djúpavog, líkt og urðu í óveðrinu í upphafi vikunnar. Formaður skógræktarfélagsins segir að helmingur skógarins sé ónýtur og íbúar séu harmi slegnir yfir að missa þetta vinsæla útivistarsvæði.

Í Hamarsfirði, sunnan Djúpavogs, fór vindhraði yfir 30 metra á sekúndu og náði 56 metrum á sekúndu í hviðum á sunnudagskvöld.

Við ræddum við Önnu Sigrúnu Gunnlaugsdóttur, formann skógræktarfélagsins, í gær þegar hún fór í Hálsaskóg að meta skemmdirnar. Hún sagði að við fyrstu sýn liti út fyrir að hundruð trjáa hefðu brotnað eða fallið og líklega væri um helmingur skógarins eyðilagður.

„Ég er komin hérna þar sem við erum að reyna að koma upp trjásafni og það er bara ófært, það er allt í rúst. Þetta er bara eins og það hafi farið fellibylur yfir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Íris Birgisdóttir - Aðsent
Trélistaverk sem prýða Hálsaskóg urðu fyrir skemmdum í storminu.

Skemmdir á listaverkum og mikið hreinsunarstarf framundan

Hálsaskógur hefur verið nokkuð vinsæll áningar- og útivistarstaður. Þar hafa verið til sýnis listaverk austfirskra listamanna og Anna Sigrún segir að í það minnsta hluti verkanna sé skemmdur eftir storminn.

Hún ráðleggur fólki að fara varlega í grennd við skóginn og segir að börn ættu ekki að vera þar ein á ferð fyrr en hreinsunarstarfi er lokið, þar sem mörg tré séu við það að falla eða brotna.

„Maður heyrir bara núna umræðuna í þorpinu, fólk er bara alveg harmi slegið yfir því að þetta sé svona, bara allt í rúst.“

Mynd með færslu
 Mynd: Íris Birgisdóttir - Aðsent

 

Fyrir þig og ykkur í Skógræktarfélaginu, hvað tekur við núna?

„Við ætlum að reyna að fá ráðleggingar bara frá skógarfræðingum, hvað eigum við að gera? Lítið skógræktarfélag hefur náttúrulega enga peninga til að laga þetta, ekki þannig það verði fært einu sinni að ganga stígana. Þannig við þurfum að fá ráðleggingar fyrst.“

 

28.09.2022 - 12:34