Í Hamarsfirði, sunnan Djúpavogs, fór vindhraði yfir 30 metra á sekúndu og náði 56 metrum á sekúndu í hviðum á sunnudagskvöld.
Við ræddum við Önnu Sigrúnu Gunnlaugsdóttur, formann skógræktarfélagsins, í gær þegar hún fór í Hálsaskóg að meta skemmdirnar. Hún sagði að við fyrstu sýn liti út fyrir að hundruð trjáa hefðu brotnað eða fallið og líklega væri um helmingur skógarins eyðilagður.
„Ég er komin hérna þar sem við erum að reyna að koma upp trjásafni og það er bara ófært, það er allt í rúst. Þetta er bara eins og það hafi farið fellibylur yfir.“