Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Skoraði á fimmtugan föður sinn í tugþraut

Mynd: RÚV / RÚV

Skoraði á fimmtugan föður sinn í tugþraut

28.09.2022 - 11:37
Þegar Finnur Friðriksson, íslenskufræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri, orðaði það við fjöldskyldu sína að sig langaði að finna sér skemmtilega áskorun í tilefni af fimmtugsafmæli sínu sá sonur hans sér leik á borði.

„Hann sat þarna álengdar, glotti bara og sagði: „Ég skora á þig í tugþraut.“ Og það var allt of góð hugmynd til að það væri hægt að láta hana flakka," segir Finnur. Þeir feðgar hafa því æft af kappi síðustu mánuðina. 

Sonurinn, Birnir Vagn, hefur reyndar dálítið forskot enda Íslandsmeistari í tugþraut í sínum aldursflokki. „Ég hef enga reynslu og er að spreyta mig í fyrsta skipti á ævinni í vel flestum þessara greina,“ segir Finnur sem dauðkveið bæði stangarstökkinu og grindahlaupinu. „Skrokkurinn minnir mann á það nær daglega að maður á ekkert að vera að fást við þetta en þetta er samt mjög gaman.“

Tugþrautareinvígi feðganna fór fram á Laugum í Reykjdal í byrjun september og Landinn fékk að fylgjast með.