Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rafmagnslaust á Kúbu og 2,5 milljónir Flórídabúa flýja

28.09.2022 - 06:46
epa10210495 A person walks on the street amid debris after the passage of Hurricane Ian, in Pinar del Rio, Cuba, 27 September 2022. Ian made landfall in western Cuba as a category 3 hurricane, causing considerable material damage with heavy rains and strong winds, before continuing northward toward Florida.  EPA-EFE/Yander Zamora
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Rafmagnslaust er á gjörvallri Kúbu eftir að fellibylurinn Ian fór þar hamförum í gær. Fárviðrið hamaðist á vesturhluta eyríkisins af ógnarkrafti í fimm tíma áður en það mjakaðist aftur á haf út. Rafmagn fór fljótlega af heimilum um einnar milljónar Kúbverja. Nokkru síðar sló öllu út í einu helsta orkuveri landsins og þegar ekki tókst að koma því aftur í gagnið leiddi það til þess að rafmagn fór af allri eyjunni og um 10 milljónir eyjarskeggja bættust í hóp hinna rafmagnslausu.

Meðalvindhraði í fellibylnum fór upp í 57 metra á sekúndu þegar verst lét og enn hærra í hviðum. Minnst tvær manneskjur létust í hamförunum og umtalsvert tjón varð á húsum, vegum, dreifikerfi rafmagns og öðrum mannvirkjum, bæði vegna veðurhæðar og  flóða og skriðufalla af völdum úrhellisins sem storminum fylgdi.

2,5 milljónir Flórídabúa skikkaðar til að yfirgefa heimili sín

Fellibylurinn Ian stefnir nú nánast beint norður yfir Mexíkóflóann til Flórída í Bandaríkjunum. Yfirvöld þar hafa skikkað 2,5 milljónir manna, einkum við Tampaflóa, til að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól áður en ofviðrið skellur á ó kvöld eða nótt.

Ian var þriðja stigs fellibylur þegar hann gekk yfir Kúbu. Hann hefur sótt í sig veðrið á ferð sinni yfir hlýjan Mexikóflóann og sérfræðingar bandarísku fellibyljastofnunarinnar telja töluverðar líkur á að hann hafi magnast upp í fjórða stigs fellibyl þegar hann tekur land í Flórída. Varað er við lífshættulegri veðurhæð, flóðum og sjóflóðum hvar sem hann fer yfir.