Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kúbverjar samþykktu samkynja hjónabönd

epa10206162 Young people in uniform guard a ballot box during the vote for the referendum on the new family code in Havana, Cuba, 25 September 2022. More than 16 percent of the almost 8.5 million Cubans called to vote in the referendum on the Family Code had gone to the polls by 9 a.m. local time, according to the National Electoral Council.  EPA-EFE/Yander Zamora
Ungliðar úr kúbverska kommúnistaflokknum standa vaktina við kjörkassa í Havana á sunnudag. Mynd: EPA-EFE - EFE
Kúbverjar samþykktu um síðustu helgi nýja og víðtæka fjölskyldulöggjöf sem meðal annars heimilar samkynja pörum að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um löggjöfina, ekki síst vegna þeirrar grundvallarbreytingar á afstöðu löggjafans til sambúðar og réttinda samkynja para sem hún felur í sér.

66,9 prósent þeirra sem atkvæði greiddu lögðu blessun sína yfir löggjöfina en 33,1 prósent sögðu nei. Það þykir óvenju hátt hlutfall mótatkvæða á Kúbu en mannréttindasamtök og baráttufólk fyrir réttindum hinseginfólks segja löggjöfina einhverja mestu mannréttindabót sem innleidd hefur verið í landinu frá byltingunni 1959.

Kúba er áttunda ríki Rómönsku Ameríku sem stígur þetta skref. hin ríkin sem heimila samkynja hjónabönd eru Argentína, Brasilía, Chile, Ekvador, Kostaríka, Kólumbía og Úrúgvæ.