Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Forðast verðhækkun á jólabókinni eins og hægt er

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kostnaður við framleiðslu bóka hefur hækkað mikið, meðal annars vegna orkukrísunnar sem nú ríkir í Evrópu. Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda segir þó ekki fýsilegt fyrir bókaútgefendur að prenta bækur sínar annars staðar en í Evrópu. Framkvæmdastjóri Forlagsins segir útgáfuna ætla að forðast verðhækkanir á jólabókinni eins og hægt er, en að einhverjar hækkanir séu óumflýjanlegar.

Að sögn Heiðars Inga Svanssonar, formanns Félags íslenskra bókaútgefenda, eru margir samverkandi þættir ástæða þess að verð á pappír hefur hækkað, sem leiðir af sér hækkandi verð á framleiðslu prentaðra bóka.

„Þær helstu eru að orkukrísan í Evrópu sem rekja má til stríðsins í Úkraínu veldur hækkun á orkuverði á framleiðslu á pappír. Undanfarin ár hefur framboð á pappír til bókaprentunar minnkað vegna meiri áherslu pappírsframleiðenda á að framleiða pappír til umbúðaframleiðslu, vegna aukningar á netsölu.“

Heiðar segir að það hafi einnig töluverð áhrif að erfitt sé að auka framleiðslu á bókapappír, þar sem stór hluti af timburframleiðslunni í Evrópu er ætlaður til útflutnings til annarra nota en til framleiðslu á pappír.

„Hækkun á flutningskostnaði um allan heim og sú staðreynd að endurgreiðsla ríkisins á hluta framleiðslukostnaðar er bundin við prentun í Evrópu þýðir að ekki er fýsilegt fyrir útgefendur að prenta bækur annars staðar í heiminum, til dæmis í Asíu,“ segir Heiðar. 

„Einnig hafa umhverfissjónarmið sem íslenskir útgefendur eru vel meðvitaðir um, meðal annars kolefnisfótspor, töluvert að segja varðandi það. Íslenskir útgefendur vilja því skipta við prentsmiðjur hér á landi eða annars staðar í Evrópu.“

Horfa fram á 50 til 150 prósenta hækkun

Prentsmiðjur víða um Evrópu hafa neyðst til þess að setja sérstakt orkuálag ofan á prentverð sitt vegna hækkandi orkuverðs í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Íslenskar bókaútgáfur prenta flestar bækur sínar í prentsmiðjum í álfunni og standa því frammi fyrir miklum hækkunum á kostnaði við útgáfurnar. Forlagið prentar stærstan hluta jólavertíðarinnar í prentsmiðju í Þýskalandi. Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að síðan undir lok síðasta árs hafi nánast mánaðarlegar tilkynningar um fordæmalausar verðhækkanir borist frá prentsmiðjunni. Hann segir að á síðasta ári hafi verið ákveðið að láta þær verðhækkanir sem þá höfðu þegar orðið ekki hafa áhrif á verðlag bóka. 

„Nú er hins vegar svo komið að við horfum fram á 50 til 150 prósenta verðhækkun á prenti milli ára. Við erum núna með böggum hildar hvernig við eigum að leysa þetta, því það sér hver heilvita maður að við getum ekki hækkað verðlag á bókum um 50 til 150 prósent án þess að það komi verulega niður á sölunni, að okkar mati að minnsta kosti.“

Egill segir þó óumflýjanlegt að hækkanir skili sér að einhverju leyti út í heildsöluverð á bókum.

„En við ætlum að gera, hjá Forlaginu, allt sem í okkar valdi stendur til þess að halda aftur af verðhækkunum á bókum fyrir jólin. Jólabókin er langsamlega vinsælasta jólagjöf landsmanna og við ætlum að gera hvað sem við getum til þess að svo verði áfram.“

Reyna að taka hækkanir á sig eins og hægt er

En hvernig nær Forlagið endum saman án mikilla verðhækkana?
„Við erum með Excel-skjölin uppi alla daga að reikna okkur fram og aftur. Við verðum náttúrulega að draga saman einhvers staðar annars staðar, en við ætlum bara að reyna að taka þetta á okkur eins og við getum. Eitthvað verðum við þó því miður að öllum líkindum að gera hvað verðið varðar, en við munum reyna allt sem í okkar valdi stendur til að hafa það sem allra minnst.“

Egill segir að verðhækkun á bókum verði vonandi einungis brot af þeim hækkunum sem Forlagið stendur frammi fyrir á prentkostnaði. Ekki sé búið að ákveða heildsöluverðið, þar sem hækkanir prentsmiðjunnar eru mánaðarlegar. 

Prentöryggi skiptir meira máli

Egill segir það ekki hafa komið til tals að færa viðskipti Forlagsins til prentsmiðja utan Evrópu. 
„Það að prenta bækur í dag tekur orðið mun lengri tíma en það gerði, sökum þess að prentsmiðjur alls staðar í heiminum, leyfi ég mér að fullyrða, hafa haldið mjög að sér höndum þegar kemur að kaupum á pappír. Þannig að þær sitja með lítinn lager pappírs, sem þýðir að það þarf að sérpanta pappír við hverja bókarprentun, sem aftur þýðir töluvert lengri framleiðslutími. Þannig að við höfum ekki treyst okkur lengra en til Norður-Þýskalands með jólaprentunina, til þess að tryggja að hún sé nú komin til landsins í tæka tíð og sé hér réttu megin við jólin. Þannig að það kom aldrei til álita að færa okkur eitthvert enn lengra til þess að reyna að þefa uppi einhver betri verð. Prentöryggið skiptir meira máli.“

Telur ekki bækurnar

Hve margar ætli jólabækur Forlagsins verði þetta árið?
„Ég hef það fyrir reglu, að minnsta kosti á þessum árstíma, að telja aldrei bækurnar,“ segir Egill. „Við erum ekki að fylla upp í neina kvóta þegar kemur að útgáfu bóka. Við ætlum okkur ekki að gefa út einhvern tiltekinn fjölda skáldverka eða ævisagna; við gefum út það sem okkur líst á og teljum að eigi erindi. Þannig að ég hef satt að segja ekki hugmynd um hvað við gefum út margar bækur. Það verður nóg af bókum, er það eina sem ég get fullyrt.“