Fólk tekur ekki sénsinn með álagabletti

Mynd: RÚV / RÚV

Fólk tekur ekki sénsinn með álagabletti

28.09.2022 - 14:40

Höfundar

„Ef ég ætlaði að fá mér heitan pott og besti staðurinn fyrir pottinn væri á álagabletti þá hugsa ég að ég myndi ekki taka sénsinn,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur.

Dagrún hefur ásamt föður sínum, Jóni Jónssyni sem einnig er þjófræðingur, skoðað og skráð alla þekkta álagabletti á Ströndum. Verkefnið hófst árið 2013 með sýningu í Sauðfjársetrinu á Ströndum og varð svo umfangsmikið að þau enduðu á því að gefa út heila bók. Spjallað var við þau feðginin í Landanum í gær. 

Álagabelttir tengjast oft sögum af álfum og huldufólki. Þetta geta verið grasbalar sem ekki má slá, steinar sem ekki má hrófla við eða hólar sem ekki má grafa í. Þeim fylgja ætíð einhverskonar boð og bönn og storki fólk örlögunum á það ekki von á góðu. Um það eru til fjölmargar sögur.

Dagrún segir að fólk beri virðingu fyrir álagablettum. „Fólk er hikandi við að segja að það trúi þessu. En það tekur samt ekki sénsinn.“