Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eiga erfiðara með að fá umhyggju frá foreldrum

Mynd: Pexels / Pexels
Hvaða máli skiptir hamingjan? Embætti landlæknis hefur mælt hamingju fullorðinna Íslendinga og í samstarfi við Rannsóknir og greiningu fylgst með hamingju ungmenna í nær tvo áratugi. Við erum að stíga upp úr áralöngum heimsfaraldri sem hefur augljóslega sett strik í reikninginn. Rykið er að setjast og vert að skoða gögnin.

Gögnin sýna að við þurfum að hlúa að hamingjunni. Íslendingar hafa aldrei mælst jafn óhamingjusamir og nú. Börn og unglingar eyddu meiri tíma með foreldrum sínum í faraldrinum en ólíkt því sem gerðist í efnahagshruninu 2008 urðu þau óhamingjusamari fyrir vikið. Ungmenni eiga erfiðara með að fá umhyggju frá foreldrum sínum. Þetta sýna mælingar hjá embætti landlæknis. 

Óhamingjan kostnaðarsöm

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri Lýðheilsu hefur haldið utan um mælingarnar frá upphafi. Hún segir fjöldamargar rannsóknir sýna að hamingja sé orsakaþáttur í velgengni samfélaga. Hún hafi jákvæð áhrif á heilsu fólks ásamt að hamingjusamt fólk sé líklegra til að taka virkan þátt í samfélaginu.

„Svo eru komnar líka mjög áhugaverðar greiningar, til dæmis frá Bretlandi þar sem sýna hvað það kostar þegar við förum niður í hamingju - og það er kostnaður fyrir samfélagið. Það hefur verið reiknað út að það að fara niður um eitt stig á hamingjuskala kostar þrettán þúsund pund á mann á ári sem er um tvær milljónir íslenskra króna. Þannig að þetta er ekki bara spurning um að okkur finnst gaman að vita hvort við erum hamingjusöm heldur að það er bara hagkvæmt fyrir samfélagið að okkur líði vel og að við séum virkir þjóðfélagsþegnar, getum tekið þátt í samfélaginu og hamingjan virðist vera góður mælikvarði á það.“

Börnin hamingjusamari í efnahagshruninu

Við höfum gengið í gegnum ólík skeið á þeim tuttugu árum sem hamingja þjóðarinnar hefur verið mæld. Þau tvö tímabil sem hafa haft mest afgerandi áhrif á líðan Íslendinga eru efnahagshrunið og heimsfaraldurinn. Þó á mjög ólíkan hátt. 

„Það er mjög áhugavert að hafa þessi gögn og við til dæmis fórum að skoða þetta svolítið í kringum efnahagshrunið og það sem kom okkur á óvart þar, var að það var aðeins munur þegar við skoðum fullorðna og börn. Hamingja fór aðeins niður hjá fullorðnum, og það þarf svolítið mikið til að hamingja fari niður. En svona þegar á heildina er litið, það sem kom okkur mest á óvart, ef þú skoðar hrunið, var að unga fólkið, unglingarnir, hamingja þeirra jókst. Það voru fleiri unglingar sem upplifðu sig hamingjusama eftir hrun."

Erfiðara að fá umhyggju frá foreldrum

Það segir Dóra hafa verið mikilvægar upplýsingar inn í umræðuna um hvers konar mælikvarða við notum til að meta árangur í samfélagi.

„Við erum rosalega mikið með fókus á hagvaxtar- og hagfræðilega mælikvarða sem hækka oft þegar eitthvað neikvætt gerist í samfélaginu. Þótt þeir hefðu líka lækkað þarna þá sáum við að það hefði ekki bara neikvæð áhrif, það hefði jákvæð áhrif á líðan barnanna og við sáum að þeir þættir sem spáðu best fyrir hamingju barna og ungmenna voru samskipti við foreldra.“

Hún segir að samverustundir, það hversu miklum tíma foreldrar verja með börnum sínum, segi þó ekki alla söguna. Tíminn skipti máli þegar litið er til þess hvort börn leiðist út í neyslu en til þess að þau séu hamingjusöm þurfi að huga að gæðum samverunnar.

„Umhyggja skiptir enn meira máli þegar kemur að hamingju. Þannig að við getum hugsað að ef við viljum meira en að börnin okkar séu ekki bara í einhverju veseni, þá þurfum við að sýna þeim umhyggju, ef við viljum að séu hamingjusöm. Við sáum að tími jókst og þau áttu auðveldara með að fá umhyggju frá foreldrum sínum í efnahagshruninu.“ Dóra segir annað hafa verið uppi á teningnum í heimsfaraldrinum.

„Svo fórum við aftur að skoða það núna gegnum covid. Hvað hefði gerst þar? Skoðum nú fyrir og eftir. Jú, þau eru að verja meiri tíma með foreldrum sínum, það hefur ekki farið niður á við en þau eiga erfiðara með að fá umhyggju frá foreldrum sínum. Við erum sem sagt að sjá að það eru færri sem telja sig hamingjusöm núna eftir covid heldur en fyrir covid. Þannig að þessi þróun er algerlega andstæð við þróunina sem varð eftir bankahrunið og gott að geta borið svona saman.“

Foreldrar fjarverandi heima við

Þannig að þrátt fyrir aukna samveru unglinga með foreldrum sínum í heimsfaraldrinum urðu þau óhamingjusamari og skorti umhyggju foreldra. Öfugt við það sem gerðist í efnahagshruninu. Hvað hefur breyst?

„Við vitum náttúrlega að foreldrar voru heima á öðrum forsendum heldur en eftir hrunið. Það minnkaði vinna, yfirvinna og alls konar eftir hrunið. Við vissum að það voru færri vinnutímar á einstaklingum sem mögulega gátu átt fimmtán ára unglinga og vonandi var það eitthvað sem þetta skilar sér í því að þau gátu verið meira til staðar.“

Dóra segir ekki hægt að segja það sama hafa gerst í heimsfaraldrinum. Fólk hafi verið heima við en ekki endilega til staðar fyrir börnin sín.

„Því þó börn séu meira með foreldrum sínum hefur fólk mikið verið að taka með sér vinnuna heim og er kannski öðruvísi til staðar. Þetta er líka bara eitthvað sem þarf að skoða, hvaða áhrif þetta hefur. Hversu auðvelt það hefur verið að taka vinnuna með sér heim og og hvort eða hvernig skilin eru milli vinnu og heimilis er það eitthvað sem við þurfum að skoða frekar.“

Snjallsímar fyrirferðameiri

Augljósasti sökudólgurinn segir Dóra að séu snjallsímarnir. Foreldrar séu vissulega mjög uppteknir í þeim og því sé erfiðara að fá hlýju og umhyggju frá þeim. Þó sé einföldun að skella allri skuldinni á símann. „Ég held að það sé of einfalt að segja að þetta sé bara síminn. En ég held við þurfum að skoða samt sem áður bara hvernig við umgöngumst þetta tæki. Ég held að það sé ekki þannig að hann sé alslæmur.“

Þó segir hún að horfast þurfi í augu við hvaða áhrif þetta litla tæki getur haft á samband foreldra við börn sín.

„Við þurfum klárlega að finna uppbyggilegar leiðir til þess að umgangast þessi snjalltæki og alla þessa samfélagsmiðla og finna að við gleymum ekki að vera líka í augnkontakt og vera til staðar og og vera virkir hlustendur en ekki vera með símann í hendinni,“ segir Dóra.

Íslensk ungmenni með lægri félags- og tilfinningagreind

Mikilvægt er að börn treysti sér til að tala um tilfinningar og áskoranir við foreldra sína, segir Dóra. Það gerist ekki af sjálfu sér.

„Reynslan sýnir líka að það þarf svolítinn tíma í samveru til þess að börn nái að komast á þann stað að opna á hvað það er sem þau hafa áhyggjur af. Það gerist kannski ekki bara í einhverjum skyndisamskiptin heldur þarf oft svolítinn tíma til eins og svona gæðastundir. Við sjáum það að gæðastundirnar eru eitthvað sem skiptir miklu máli fyrir hamingjuna.“

Félags- og tilfinningafærni gerð að skyldufagi

Dóra segir íslensk ungmenni mælast með minni félags- og tilfinningagreind en ungmenni í nágrannalöndum okkar. Hún vill að félags- og tilfinningafærni verði kennd í grunn- og framhaldsskólum. Finnar hafi góða reynslu af því.

„Ég held að það sé líka ein af skýringunum á því af hverju Finnum gengur betur í ýmsum öðrum þáttum sem verið er að mæla til dæmis eins og í PISA og öðru. Það er ekki bara því þau eru svo rosalega mikið að kenna einhverjar raungreinar. Það er af því þau eru að kenna félags- og tilfinningafærni.  Sem er grundvöllurinn til þess að við getum lært allt annað,“ segir Dóra sem vill gera félags- og tilfinningafærni að skyldufagi í skólum hér á landi. 

„Það vantar kannski að þjálfa kennarana. Þeir eru óöruggir í að kenna þetta og við viljum leggja til að kennarar verði þjálfaðir í að kenna félags- og tilfinningafærni og það verði skyldufag í skólum á Íslandi,“ segir Dóra að lokum.

 

Rætt var við Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra lýðheilsu hjá Embætti landlæknis, í Speglinum. Hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér fyrir ofan.