Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vilja rýmka reglur um afgreiðslutíma Vínbúða

27.09.2022 - 13:48
Innlent · Alþingi · Áfengi · ÁTVR
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar V - RÚV
Vínbúðir fá leyfi til að vera með opið á sunnudögum og öðrum frídögum samkvæmt frumvarpi sem fimm þingmenn Framsóknarflokks hafa lagt fram á Alþingi.

Þetta er í annað sinn sem frumvarpið er lagt fram. Flutningsmaður frumvarpsins er Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir þingmaður Framsóknarflokks og fjórir aðrir samflokksmenn hennar.

Samkvæmt núgildandi lögum þurfa áfengisútsölustaðir að vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní, fyrsta mánudag í ágúst og á sunnudögum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta bann verði afnumið og er vísað til þess að sambærilegar reglur gildi um áfengisverslanir á Norðurlöndum.

Í greinargerð frumvarpsins kemur meðal annars fram að bregðast þurfi við  tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, með því að rýmka lög um opnunartíma Vínbúða. Með þessu sé þó ekki verið að skylda ÁTVR til að hafa verslanir opnar á þessum dögum. Þá leggja þingmennirnir áherslu á að blása þurfi til stórsóknar í forvörnum með auknum fjárframlögum. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV