Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðarsorg vegna horfinna mexíkóskra námsmanna

epa10208474 Activists, relatives and colleagues of the 43 disappeared students of the Ayotzinapa's 'Isidro Burgos' Normal School march in Mexico City, Mexico, 26 September 2022. The march on the eighth anniversary of the 43 disappeared normalistas from Ayotzinapa began this Monday from the Angel of Independence to the Zocalo in the Mexican capital.  EPA-EFE/Sáshenka Gutiérrez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Mexíkóforseti lýsti yfir þjóðarsorg og hvatti til friðsemdar við samkomur þar sem þess var minnst í gær að átta ár eru liðin frá hvarfi 43 kennaraháskólanema í Guerrero-fylki. Saksóknarar segja hvarfið vera glæp á vegum ríkisins og hafa ákært tugi opinberra starfsmanna.

Ættingjar hinna horfnu, námsmenn og þúsundir annarra gengu um stræti Mexíkóborgar, sungu mótmælasöngva og báru skilti með áletrunum þar sem herinn var sakaður um hvarfið.

Her- og lögreglumenn eru meðal þeirra sem ákærðir eru auk embættismanna og liðsmanna glæpagengja. Blanca Nava, móðir eins námsmannsins, krefst þess í samtali við AFP fréttaveituna að aðkoma hersins verið rannsökuð og þeim refsað sem hlut áttu að máli.

Andres Manuel Lopez Obrador Mexíkóforseti lýsti yfir þjóðarsorg í gær til að minnast hinna horfnu námsmanna og brýndi jafnframt fyrir mótmælendum að sýna stillingu.

Samkomurnar og mótmælin í gær fóru að mestu friðsamlega fram en nokkrir lögreglumenn særðust í átökum við mótmælendur fyrr í vikunni. 

Sannleiksnefnd segir herinn bera mesta ábyrgð

Námsmennirnir 43 hurfu í lok september 2014 en aðeins hafa fundist líkamsleifar þriggja þeirra. Þeir hugðust taka þátt í mótmælum í Mexíkóborg en hurfu áður en þeir komust þangað.

Rannsakendur staðhæfa að spilltir lögreglumenn hefðu handtekið nemana og fært þá eiturlyfjahring sem tók þá í misgripum fyrir keppinauta á glæpasviðinu.

Óljóst þykir hvað henti í framhaldinu en námsmennirnir sáust aldrei aftur. Opinber skýring gefin út í forsetatíð Enriques Pena Nieto er að glæpamennirnir hafi myrt námsmennina og brennt lík þeirra.

Sannleiksnefnd á vegum núverandi stjórnvalda segir fulltrúa fjölda stjórnarstofnana bera ábyrgð, ekki síst herinn, ýmist beint eða vegna vanrækslu.

Saksóknari gaf í síðasta mánuði út handtökutilskipanir á hendur 80 manns en lögmaður ættingja námsmannanna segir 20 þeirra þegar hafa verið dregnar til baka. Það skýri meðal annars þau miklu mótmæli sem verið hafa undanfarið.