Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stríðsfangi segist aldrei aftur geta hlustað á Abba

Shaun Pinner er einn þeirra fimm bresku stríðsfanga sem látnir voru lausir í viðamiklum fangaskiptum milli Rússlands og Úkraínu í september 2022. Hann lýsti pyntingum sem hann mátti þola, meðal annars með því að vera neyddur til að hlusta á sama ABBA lagið sólarhringum saman.
 Mynd: AFP
Shaun Pinner er einn þeirra fimm bresku stríðsfanga sem látnir voru lausir í viðamiklum fangaskiptum milli Rússlands og Úkraínu í síðustu viku. Hann segist feginn að vera laus en hann muni aldrei geta hlustað á ABBA framar.

„Ég hélt ég myndi deyja, þetta var helvíti á jörð“, segir Pinner sem sat sex mánuði í fangelsi. Aðskilnaðarsinnar í Donetsk-héraði hliðhollir Rússum handsömuðu hann og dæmdu til dauða sem erlendan málaliða.

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið á vef sínum og vitnar í viðtal breska götublaðsins The Sun. Pinner þurfti að þola raflost og hnífstungur af hendi fangara sinna og var látinn hlusta á Abba-lagið Mamma Mia sólarhringum saman.

Algengt er að beita hávaða sem pyntingaraðferð. „Ég get aldrei hlustað á Abba aftur. Ég var ekkert hrifinn af þeim fyrir, þannig að þetta var hræðilegt kvalræði,“ segir Pinner sem nú er kominn heim til Englands. 

Vistin skárri eftir að dauðadómurinn var kveðinn upp

Shaun Pinner var einn rúmlega 200 fanga sem Rússar létu lausa við fangaskiptin. Úkraínumenn slepptu rúmlega 50 rússneskum hermönnum og úkraínska stjórnmálamanninum Viktor Medvedchuck.

Eftir að dauðadómurinn var kveðinn upp var Pinner fluttur í annað fangelsi ásamt landa sínum Aiden Aslin og Marókkómanninum Brahim Saadum. „Þar var farið betur með okkur en áfram var eitt og sama lagið spilað aftur og aftur. Í þetta sinn Believe með bandarísku söngkonunni Cher.“ 

Aiden Aslin segir svipaða sögu af hnífstungum og barsmíðum. Í stað Abba neyddist hann til að þola tónlist frá Sovéttímanum dag eftir dag.

Bretinn John Harding var ekki beittur hljóðpyntingum en kvalarar hans létu hann þola annars konar skelfilega meðferð. Verst sagði hann hafa verið þegar hendur hans voru járnaðar fyrir aftan bak meðan menn spörkuðu í maga hans, bringu og andlit.