Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Neitaði að handtaka íslenska móður vegna brottnáms

27.09.2022 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hafnað var beiðni móður um dómkvaddan matsmann í brottnámsmáli. Héraðsdómur taldi engu að síður mikilvægt að sálfræðingur ræddi ítarlega við þrjá syni hennar þar sem þeir hefðu notið „óvenjulega takmarkaðrar umgengni“ við móður og systur. Ríkissaksóknari hafnaði réttarbeiðni frá Noregi þar sem þess var krafist að móðirin yrði handtekin fyrir brottnámið og hún afhent norskum yfirvöldum.

Málið var töluvert til umfjöllunar í íslenskum og norskum fjölmiðlum fyrr á þessu ári. Móðirin flaug með einkaflugvél frá Íslandi til Noregs, náði þar í þrjá syni sína og kom með þá hingað. Brottnám drengjanna frá Noregi er rakið í úrskurði héraðsdóms.

Þar kemur fram að móðirin hafi sótt drengina til Noregs og flutt þá hingað til lands í lok mars án vitneskju föður og samráðs við hann. Drengirnir ferðuðust ekki undir eigin nafni. Samdægurs gáfu norsk yfirvöld út handtökuskipun á hendur móðurinni. 

Faðir drengjanna lagði fram beiðni fyrir héraðsdómi í byrjun júlí um að drengirnir yrðu teknir úr umráðum móður með beinni aðför. Í beiðninni segir að móðirin haldi drengjunum á Íslandi með ólögmætum hætti enda fari hann einn með forsjá þeirra.  Móðirin leggst gegn því og segir að það muni hafa alvarlegar sálrænar afleiðingar fyrir þá. Drengirnir vilji heldur búa á Íslandi með móður sinni, systrum, hálfsystkinum og stórfjölskyldu. 

Móðirin krafðist þess að dómkvaddur matsmaður yrði fenginn til að svara átta spurningum um hvaða áhrif það hefði á drengina að fara aftur til föður síns.

Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu. Í úrskurðinum kemur engu að síður fram að dómarinn telji ástæðu til þess að sálfræðingur verði fenginn til að ræða ítarlega við drengina. Sálfræðingurinn eigi ekki eingöngu að kanna viðhorf þeirra til að fara aftur til Noregs heldur einnig að leggja mat á hvaða áhrif aðskilnaður drengjanna frá móður þeirra og systrum hefði á þá og hvort líklegt væri að slíkur aðskilnaður myndi skaða andlega heilsu þeirra.

„Horfir dómari í þessu efni sérstaklega til þess hve óvenjulega takmarkaðrar umgengni virðist hafa notið við á milli drengjanna annars vegar og móður þeirra og alsystra hins vegar allt frá því að drengirnir voru teknir úr umráðum móður og afhentir föður með aðfarargerð í júlí 2019,“ segir í úrskurði héraðsdóms sem hefur verið staðfestur í Landsrétti.

Það er fleira sem vekur athygli í þessum úrskurði héraðsdóms sem kveðinn var upp í lok síðasta mánaðar. Þannig segir að norsk yfirvöld hafi sent réttarbeiðni til Íslands í byrjun apríl þar sem þess var krafist að móðirin yrði handtekin og afhent norskum yfirvöldum.

Í beiðninni var annars vegar vísað til sex mánaða dóms sem móðirin fékk í október fyrir tveimur árum fyrir að skila þeim drengina ekki aftur í umsjá föður síns eftir vetrarfrí hér á landi árið 2019.  Og hins vegar til handtökuskipunar sem handhafi ákæruvalds hefði gefið út í byrjun apríl vegna brottnámsins.   

Ríkissaksóknari hafnaði beiðninni í lok maí. Handtökuskipunin hefði ekki verið gefin út af dómara og Fangelsismálastofnun hefði samþykkt beiðni norskra yfirvalda um að móðirin gæti fullnustað refsingu sína hér. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV