Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kómísk og lúmsk ádeila um sinfóníuhljómsveit

Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radio

Kómísk og lúmsk ádeila um sinfóníuhljómsveit

27.09.2022 - 13:39

Höfundar

Sjónvarpsþættirnir Orkestret, sem framleiddir eru af Danmarks Radio, hafa vakið kátínu áhorfenda undanfarið. Þættirnir eru tragikómískir gamanþættir og karakterarnir ýktir, en þrátt fyrir þann safaríka efnivið sem hin sérstæða félagseining, sinfóníuhljómsveitin, getur talist, hefur hingað til lítið verið framleitt af álíka efni.

„Velkominn, Jeppe, gott að fá þig um borð. Þetta er erfitt umhverfi. Sumir heimsins bestu tónlistarmenn en jafnframt hundruð taugaveiklaðra narsisista með mikið egó og lélega sjálfsmynd sem allir hafa alist upp sem einkabörn. Hundrað egóistar sem eiga að skapa samfélag og við það áttu meðal annars að aðstoða.”

Svona hljóma ráðleggingar framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Kaupmannahafnar til nýráðins aðstoðarmanns síns í sjónvarpsþáttunum Orkestret, sem framleiddir eru af DR og áhugasamir geta nálgast í spilara RÚV. Þættirnir eru tragikómískir gamanþættir og karakterarnir eftir því ýktir, en tilurð sjónvarpsþáttanna vöktu gleði magra, sem höfðu jafnvel furðað sig á því hversu lítið hefur verið framleitt af álíka efni. Sinfóníuhljómsveitin er nefnilega um margt mjög sérstæð félagseining og af nógu að taka fyrir þá sem leita að safaríkum efnivið fyrir sjónvarp, kvikmyndir eða önnur frásagnarform.

Byrjum á því að skoða aðeins fyrirbærið sinfóníuhljómsveit. Orðið sinfonia er komið af grísku orðunum sym, sem þýðir saman, og phone, sem þýðir rödd, eða hljóð. Merking orðsins sinfonia má því segja að sé að mynda hljóð saman. Viðeigandi fyrir eðli og starf sinfóníuhljómsveitarinnar, sem vinnur jú að því markmiði að mynda heildrænan hljóm úr flutningi hátt í hundrað ólíkra hljóðfæraleikara. Líka nokkuð magnað að hugsa til þess að á þeim tíma sem sinfóníuhljómsveitin var að þróast og verða að því fyrirbæri sem hún er í dag gat mannlegur máttur með engu öðru móti myndað jafn stóran hljóðheim eða mikinn hávaða.

Um miðja 18. öld voru engin hljóðkerfi til, engar stórvirkar vinnuvélar, ekki einu sinni útvarp. En þó svo allt þetta og meira til berji, óumbeðið eða viljandi, á hljóðhimnum hlustenda samtímans, þá lifir sinfóníuhljómsveitin enn góðu lífi, að minnsta kosti enn um sinn. Og kannski einmitt vegna þessa langlífis gefur félagslega fyrirbærið sinfóníuhljómsveit tilefni til alls kyns vangaveltna, um stöðu listarinnar frammi fyrir markaðsvæðingu nútímans, um valdakerfi innan tónlistarheimsins, um hinn ósnertanlega, eða ekki svo ósnertanlega, snilling og margt fleira.

Á þessu hafa handritshöfundar Orkestret áttað sig, og fara sniðuglega með það margt. Skoðum efnistök þáttanna stuttlega:

Sagan hverfist um klarinettuleikarann Bo Hoxenhaven, karlmann á miðjum aldri. Hann spilar annað klarinett í sinfóníuhljómsveitinni, en er sannfærður um að hans rétti staður væri frekar sæti fyrsta klarinettuleikarans. Hér kynnumst við strax valdastrúktúr sinfóníuhljómsveitarinnar, sem mögulega ekki allir þekkja.

Hin hefðbundna sinfóníuhljómsveit, í fullri stærð, samanstendur af um 100 hljóðfæraleikurum og skiptist í nokkra hluta, eða hljóðfærahópa. Fyrstar ber að nefna fiðlurnar, sem oftast eru um 30 talsins og skiptast í fyrstu og aðra fiðlu. Þar spilar sá hópur sem tilheyrir fyrstu fiðlu oftar laglínur og áberandi hreyfingar í tónverkum, og þykir sumum þeirra fyrir vikið merkilegra að tilheyra fyrstu fiðlu. Fremst í fiðluflokknum situr konsertmeistarinn, leiðari strengjasveitarinnar og hljómsveitarinnar allrar, og næstvaldamesta staðan innan hljómsveitarinnar, á eftir hljómsveitarstjóranum sjálfum.

Innan víólu-, selló- og kontrabassadeildarinnar sitja líka leiðarar sinna hljóðfærahópa, sem oftar en ekki sitja í hálfhring fremst á sviðinu, næst hljómsveitarstjóranum og eru þar í kjörstöðu til að miðla áfram túlkun bæði hljómsveitarstjórans og hinna leiðaranna. 

Auk strengjasveitarinnar eru innan sinfóníuhljómsveitarinnar hljóðfærahópar sem skiptast gróflega niður í málmblásara, tréblásara og slagverk, en við þá hópa bætist svo stundum harpa og hljómborðshljóðfæri. Innan allra þessara hópa ríkir ákveðinn valdastrúktúr. Þannig telst sá hljóðfæraleikari sem leikur fyrsta klarinett vera leiðari klarinettudeilarinnar og leikur sá eða sú velflesta áberandi sólóparta, komi þeir fyrir í tónverkunum. Hlutverk annars klarinetts felst hins vegar öðru fremur í því að fylgja því sem fyrsta klarinettið gerir og falla inn í hljóminn. Eða, með orðum Bo Hoxenhaven:

„Ég er annað klarinett. Þú heyrir ekki í mér. Þú heyrir bara í öðru klarinetti ef ég spila vitlaust.“

Sögðuþráður Orkestret hverfist um þá togstreitu sem orð Bo Hoxenhaven endurspegla. Hann er hinn misskildi snillingur, sannfærður um að sem slíkur eigi hann réttmætt erindi í stöðu fyrsta klarinettsins, sama hvað þarf til. Ofverndaður af móður sinni og alls ómeðvitaður um félagslegar óvinsældir sínar innan hljómsveitarinnar leggur hann á ráðin um að koma fyrsta klarinettuleikaranum fyrir kattarnef, handviss um að það eitt nægi til þess að rétta sinn hlut.

Til þess að hljóta stöðu í sinfóníuhljómsveit þurfa hljóðfæraleikarar að vinna svokölluð prufuspil. Þau eru nokkurs konar áheyrnarprufur, sem oftast fara fram á bak við tjald, svo dómnefnd eigi þess kost að meta færni hljóðfæraleikarans eins hlutlaust og hægt er. Þetta fyrirkomulag er enn við líði í velflestum sinfóníuhljómsveitum heims, þó sums staðar hafi hljómsveitir fundið aðrar leiðir til þess að velja inn hljóðfæraleikara, leiðir sem til að mynda reyna meira á samstarfseiginleika viðkomandi umsækjenda, næmni, músíkalitet eða kammermúsíkhæfileika.

Ekki er óalgengt að fjöldi umsækjenda um hverja stöðu nái hundraði, og standist vinningshafinn reynslutíma hefur hann tryggt sér starf til lífstíðar. Samkeppnin er því hörð og oft talsverð spenna og pólitík í kringum ráðningar í sinfóníuhljómsveitum, eflaust eins og á mörgum öðrum vinnustöðum. Samkeppniselementið í hljómsveitarheiminum þýðir líka að aðeins örfáir þeirra hljóðfæraleikara sem klára háskólanám í hljóðfæraleik ná að tryggja sér slíkt lífstíðaröryggi í ótryggum tónlistarheimi sem staða í sinfóníuhljómsveit er, þrátt fyrir allt og allt.

Í dönsku gamanþáttunum Orkestret kynnast áhorfendur ýmsum hliðum á þessum heimi. Bo Hoxenhaven er alinn upp á vel stæðu heimili foreldra sem leggja mikla áherslu á snilligáfu hans. Hann er 37 ára og virðist hafa takmarkaða færni í flestu öðru en að spila á klarinettið sitt, enda þarf mikla ástundun og tileinkun til þess að ná svo langt og lítill tími aflögu fyrir annað í fjögurra áratuga uppvexti. Í karakter Bo endurspeglast afstaða framkvæmdastjórans sem vitnað var í í upphafi; hann er dæmi um framúrskarandi tónlistarmann sem er jafnframt, og að því er virðist óhjákvæmilega, líka taugaveiklaður narsisisti með mikið egó og lélega sjálfsmynd. En góðu heilli hefur karakter Bo líka dýpri hlið; því hann er dæmi um gömlu gerðina af listamanni, - sérvitra snillinginn, þennan sama og virðist í dag á stundum vera í bráðri útrýmingarhættu, ekki bara frammi fyrir markaðshyggjunni, heldur líka frammi fyrir pólitískri rétthugsun og straumlínulöguðum samtíma.

Í kómískri og lúmskri ádeilu Orkestret er ekki bara unnið með valdastrúktúrinn innan sinfóníuhljómsveitarinnar, heldur líka hlutverk hljómsveitarstjórans sjálfs. Og þar mætti eflaust líka draga fram ýmsar geirfuglalíkingar. Aðalhljómsveitarstjóri Kaupmannahafnarsinfóníunnar, sem nota bene er tilbúið hljómsveitarnafn, notar kynferðislegar samlíkingar óspart til þess að miðla túlkun sinni til hljómsveitarinnar. Nýráðnum aðstoðarframkvæmdastjóra þykir nóg um, og þrátt fyrir ábendingar yfirmannsins um að hljómsveitarstjórinn sé ósnertanlegur, og að þar með leyfist honum velflest það sem öðrum leyfist ekki, tekst aðstoðarframkvæmdastjóranum ekki að halda aftur af sér og lætur hljómsveitarstjórann fjúka.

Sú tíð er liðin að listamenn, sama hversu merkilegir þeir eru eða hversu hátt þeir sitja í híarkíunni, geti leyft sér hvað sem er. Sem auðvitað er ekki það sama og að ekkert megi lengur.

Okkar danska frændþjóð telst Íslendingum líklega síður en svo eftirbátur hvað pólitíska rétthugsun varðar. Ef marka má húmorinn í Orkestret mætti jafnvel halda að Danir væru komnir skrefinu framar, því í þáttunum tekst handritshöfundum að leika sér á línunni og koma samtímis til skila ádeilu og gamani. Og það er ekki einungis á kostnað listamannanna, því þó svo hlutverk hljómsveitarmeðlima í Sinfóníuhljómsveit Kaupmannahafnar séu máluð skærum litum og ýktum, þá reynist framkvæmdateymi og yfirstjórn hljómsveitarinnar ekki síður breysk. Framkvæmdastjórinn virðist sjálf passa ágætlega í eigin lýsingu á hljómsveitarumhverfinu og á fullt í fangi með að átta sig á lögmálum öðrum en þeim að halda tappanum í flöskunni svo innansveitardramað gjósi ekki upp úr og flæði í átt að slúðurblöðunum. Að hafa hemil á hundrað snillingum er meira en að segja það.

Sumum gæti þótt freistandi að horfa á sinfóníuhljómsveitina sem fyrirbæri úr takti við samtímann. Fyrirbæri sem seint býður upp á raunverulega lýðræðishugsun og situr að því er virðist eftir, á meðan umhverfið þeysist áfram og landslagið er ofuráreiti, sífellt öflugra hljóðkerfi og einmanaleg heyrnartól með snjalltengingu og sítengingu. En meira að segja í stjórnunarfræðunum hafa menn viðurkennt að málið er ekki svo einfalt. Þar hafa menn nýlega skrifað doðranta þar sem litið er til sinfóníuhljómsveita sem fyrirmyndar fyrir félags- og skipulagsþróun. Fyrirmyndar að samfélagi sem byggist á hlustun og næmi fyrir ólíkum hópum, feli jafnvel í sér möguleika til að yfirstíga pólitískar og félagslegar gjár um allan heim. Þetta er ekki grín, þið getið gúgglað þetta.

Klarinettuleikarinn Bo Hoxenhaven kyngir stolti sínu þegar uppáhaldsnemandi hans hlýtur meiri viðurkenningu en hann sjálfur. Þegar hljómsveitarstjórinn telur í stíga öll egó til hliðar, listinni til höfuðs. Markmiðið er eitt, það er sym og phone, það er samhljómur.

Og það sitja enn stóreygar stúlkur í salnum.