Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hundrað ára gömul tré fuku á sjö mínútum

27.09.2022 - 14:51
Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Úlfar Helgason er jarðýtustjóri og bóndi á Hoffelli 1 í Hornafirði. Í hádegisfréttum lýsti hann því hvernig átta tré, sem eru öll hundrað ára gömul og eldri, féllu í sjö mínútna hvelli í ofsaveðrinu á sunnudaginn. 

„Heyrðu, það byrjaði að hvessa um hádegið á sunnudaginn og svo skeður þetta allt saman. Þetta ofsahnútur sem kom, hann skeður um tvö leytið.” 

Úlfar var nýkominn heim og segir að það hafi komið ein snörp vindhviða og ekki sést mikið út um gluggana. 

„Það dimmdi svo mikið það bara kom mjöl og grjót fyrir framan gluggann. Um leið og birti til, það féllu átta tré í gömlum blómgarði hérna, rétt við kirkjugarðinn hérna.”

Samtals rifnuðu átta tré upp með rótum: fjögur reynitré og aspir. Ein stór ösp klofnaði og helmingur af henni fauk. Trén voru öll yfir hundrað ára gömul og um þrjátíu metrar á hæð. Heimakirkjan slapp og að sögn Úlfars féllu öll trén við dyrnar á henni. Einnig fauk stafn af einu húsi á hlaðinu og vindur eyðilagði rúðu í hjólaskóflu. 

Merkilegt er að allt féll til jarðar á innan við tíu mínútum. Þó það væri hvasst seinni hluta dagsins, komu engar svo snarpar hviður eftir það.

Úlfur er byrjaður að taka til, moka steypubrot sem féllu úr stafninum og hreinsa allt í kring. Það þarf því miður að farga öllum trjánum og Úlfar heldur að það taki um tvo daga að saga trén niður. Hann þarf svo að smíða nýjan stafn á húsið.