Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hirðin kynnir nýtt merki Karls III Bretakonungs

27.09.2022 - 02:27
Prince Charles, right, addresses the crowd as he appears on stage with Camilla, Duchess of Cornwall, during the Platinum Jubilee concert taking place in front of Buckingham Palace, London, Saturday June 4, 2022, on the third of four days of celebrations to mark the Platinum Jubilee. The events over a long holiday weekend in the U.K. are meant to celebrate Queen Elizabeth II's 70 years of service. (AP Photo/Alberto Pezzali, Pool)
 Mynd: AP - RÚV
Breska hirðin greindi í dag frá því hvernig sérstakt merki hins nýja konungs, Karls III, lítur út. Fangamarkið verður sýnilegt á opinberum byggingum, skjölum ríkisins og nýjum póstkössum svo eitthvað sé nefnt.

Merki Elísabetar II heitinnar var EIIR, þar sem E-ið stóð fyrir nafn drottningar og R-ið fyrir Regina eða drottning upp á latínu. Karl notar CIIIR þar sem R-ið merkir Rex eða konungur á latínu.

Upphafstafirnir tveir fléttast saman og rómverska talan III liggur inni í hálfboganum á bókstafnum R. Kóróna konungs er svo yfir fangamarkinu, ensk eða skosk eftir þörfum.

Fyrstu bréfin með fangamarki Karls verða send frá Buckinghamhöll á morgun þriðjudag eftir að sorgartíma vegna fráfalls Elísabetar lýkur við hirðina. Þaðan berast um 200 þúsund bréf af ýmsu tagi árlega. 

Mynd með færslu
 Mynd: Breska hirðin - RÚV
Merki Karls III.

Hin konunglega skjaldarmerkagerð bresku krúnunnar, sem hefur verið við lýði frá árinu 1484, hannaði fangamarkið. Ýmsar sýnilegar og heyranlegar breytingar hafa orðið í bresku þjóðlífi eftir embættistöku Karls III. 

Í þjóðsöngnum er Guð nú beðinn að blessa konunginn í stað drottningarinnar áður og málafærslumenn hennar hátignar drottningarinnar, QC, eru nú konunglegir málafærslumenn eða KC.

Aðrar afleiðingar valdaskiptanna taka lengri tíma og koma smám saman til framkvæmda á Bretlandi og í þeim 14 löndum sem hafa Karl III sem þjóðhöfðingja. Þeirra á meðal er mynd konungs á peningaseðlum og mynt auk orðalags í vegabréfum landsmanna.