Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafnar því að hafa beitt sér fyrir endurkomu Helga

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Tómas Guðbjartsson, læknir og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, hafnar því að hann hafi beitt sér fyrir því að Helgi Jóhannesson lögmaður fengi sæti á ný í stjórn félagsins. Þetta gerir hann í færslu á Facebook.

Fyrr í dag sagði Anna Dóra Sæþórsdóttir af sér formennsku í Ferðafélaginu. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér segist hún ekki vilja starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi ganga þvert á hennar gildi.

Sagði hún meðal annars að einn stjórnarmanna hafi beitt sér af hörku fyrir því að Helgi Jóhannesson lögmaður fengi að starfa fyrir félagið á ný. Helgi sagði af sér stjórnarsetu í félaginu ásamt því að hætta sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar, vegna ásakana um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Þótt Anna Dóra nefndi stjórnarmanninn, sem hún sagði vin Helga, ekki á nafn var ljóst að vísað var til Tómasar Guðbjartssonar læknis.

Í yfirlýsingu Tómasar segist hann aldrei hafa lagt til að Helgi tæki aftur sæti í stjórn félagsins. Hins vegar segir hann að Helgi, sem hann nafngreinir ekki, hafi nýverið sent stjórn félagsins erindi og óskað eftir að fá að útskýra sína hlið á skyndilegu brotthvarfi úr stjórninni. Segir Tómas að honum hafi þótt rétt að það erindi fengi formlega umfjöllun stjórnar. Því hafi hann tekið að sér að koma á fundi milli Helga og stjórnar — fundi sem Anna Dóra, fráfarandi formaður hugðist ekki sækja.