Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég varð að gera þetta opinbert“

27.09.2022 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðafélag Íslands
Anna Dóra Sæþórsdóttir hefur sagt af sér sem forseti Ferðafélags Íslands. Í yfirlýsingu sem hún sendi félaginu segist hún ekki vilja starfa í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi ganga þvert á eigin gildi.

Anna Dóra segir í samtali við fréttastofu að henni hafi þótt mikilvægt að gera þetta opinbert. Ekki megi þagga svona mál niður.

„Við verðum öll að taka þátt í að breyta samfélaginu. Þarna lendir þetta í fanginu á mér og ég varð að gera þetta opinbert til að ég stæði mína plikt í því máli,“ segir Anna Dóra.

Vanræktu að bregðast við ásökunum

Rúmt ár er liðið frá því Anna Dóra var kjörin forseti Ferðafélagsins, fyrst kvenna. Í yfirlýsingunni segir hún að henni hafi fljótlega eftir kosninguna borist upplýsingar um mál sem félagið hafði vanrækt að bregðast við, frekar stungið undir stól. Þetta hafi verið ásakanir um áreitni eða kynferðislegt ofbeldi sem og athugasemdir um reksturinn.

Hún segir að þegar hún hafi beitt sér fyrir að á þessum málum yrði tekið hafi farið að bera á brestum í samstarfinu við stjórn og framkvæmdastjóra. Anna Dóra fullyrðir að æðstu stjórnendur félagsins hafi vitað af ásökunum um kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni í lengri tíma en ekkert aðhafðst. 

Eitt þessara mála hafi varðað stjórnarmann í félaginu. Hún hafi beitt sér fyrir að tekið yrði á málunum af festu og voru málin til lykta leidd, meðal annars með þeim afleiðingum að stjórnarmaðurinn sagði af sér.

Tómas hafi beitt sér fyrir endurkomu Helga

Greint var frá því í nóvember í fyrra að Helgi Jóhannesson, fyrrverandi yfirlögfræðingur hjá Landsvirkjun, hefði sagt sig úr stjórn Ferðafélagsins. Hann hafði þá hætt sem yfirlögfræðingur og greindi Stundin frá því að samstarfskona hjá Landsvirkjun hafi kvartað undan óviðeigandi hegðun hans. Annað mál hafi verið til umfjöllunar innan Ferðafélagsins.

Að sögn Önnu Dóru vildu „ákveðnir stjórnarmenn“ aftur fjalla um málið fáeinum mánuðum síðar. Einn stjórnarmanna, sem Anna Dóra segir góðan vin viðkomandi, hafi beitt sér af hörku fyrir því að hann fengi að starfa fyrir félagið á ný. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þessi stjórnarmaður Tómas Guðbjartsson hjartalæknir.

„Helstu rökin sem notuð voru til að réttlæta endurkomu umrædds fyrrverandi stjórnarmanns voru að hann væri „vinur okkar“ og að „við skulduðum honum“. Það er að mínu mati óeðlilegt að stjórnarfólk taki þátt í umræðu og ákvörðunum um vini sína og beiti aðstöðu sinni til að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu,“ segir í yfirlýsingu Önnu Dóru.

Hótanir í garð fararstjóra

Í yfirlýsingunni rekur Anna Dóra jafnframt annað mál og segir að sér hafi nýlega borist upplýsingar um ásakanir um áreitni og ósæmilega hegðun stjórnarmanns í skipulagðri ferð á vegum félagsins. Málið hafi ekki verið meðhöndlað í samræmi við stefnu Ferðafélagsins. 

Anna Dóra hafi óskað eftir upplýsingum um málið en brugðist hafi verið við með óbeinum hótunum gagnvart fararstjóra þessarar ferðar. „[A]uk þess sem haft var samband við vinkonu konunnar sem fyrir áreitinu varð. Þeim var tilkynnt að það myndi hafa afleiðingar ef þetta mál yrði rætt frekar.“

Hvorki náðist í Helga Jóhannesson né Tómas Guðbjartsson við vinnslu fréttarinnar.