Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Útlit fyrir hægrisinnuðustu stjórn Ítalíu frá 1945

epa10206623 Giorgia Meloni at the headquarters of the Brothers of Italy (Fratelli d'Italia) in Rome, Italy, 25 September 2022. Italy held a  general snap election on 25 September following its prime minister's resignation in July. Final results are expected to be announced on 26 September.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Giorgia Meloni, leiðtogi Bræðralags Ítalíu, kveðst reiðubúin að taka við forsætisráðherraembættinu, fyrst kvenna, og verða leiðtogi allra Ítala. Flokkur hennar hlaut allt að fjórðung atkvæða í þingkosningum í gær.

Útgönguspár benda til að stutt sé í að hægrisinnaðasta ríkisstjórn Ítalíu frá stríðslokum taki við völdum. Hamingjuóskum rigndi yfir Meloni í nótt frá leiðtogum stjórnmálaflokka í Evrópu með svipaða lífssýn. 

Meloni segir ítalska kjósendur hafa sent skýr skilaboð um stuðning við hægri stjórn undir forystu Bræðralagsins ásamt Lega undir stjórn Matteo Salvini og Forza Italia flokki Silvios Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra.

Þremenningarnir eru hvergi nærri sammála um alla hluti en stjórnmálaskýrendur segja helstu áskorun Meloni vera að snúa kosningasigrinum yfir í langvarandi forystu í landsmálum.

Verulega dró úr fylgi við flokka Salvinis og Berlusconis en samt er útlit fyrir að flokkarnir þrír fái alls um 43 prósent atkvæða sem dugar þeim til að tryggja meirihluta í báðum deildum þingsins.

Endanlegra niðurstaðna að vænta síðar í dag

Ekki er búist við endanlegum niðurstöðum kosninganna fyrr en síðar í dag en leiðtogar Lýðræðisflokksins eða Partito Democratico, helsta keppinautar hægri bandalagsins, viðurkenndu ósigur í nótt.

Meðal helstu stefnumála Meloni voru lækkun skatta, lokun landamæra landsins fyrir straumi innflytjenda og sporna við því sem hún kallaði „lobbíisma“ hinsegin fólks.

Meloni vill ekki yfirgefa evrusvæðið en segir brýnt að færa meira vald heim til Rómar. Jafnframt vill hún endursemja um milljarða björgunarpakka sambandsins fyrir Ítalíu vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. 

Mikill óstöðugleiki hefur ríkt í ítölskum stjórnmálum frá stríðslokum en 70 ríkisstjórnir hafa setið síðan þá. Kosningaþátttaka var í sögulegu lágmarki eða 64 af hundraði, níu prósentustigum minna en í kosningunum 2018.