Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íslandsbankaskýrslu ekki skilað í þessum mánuði

26.09.2022 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki verður hægt að klára skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir lok þessa mánaðar. Þetta staðfestir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við fréttastofu.

Upphaflega var stefnt á að klára skýrsluna í júní en vinnan hefur reynst umfangsmeiri en gert var ráð fyrir.

Guðmundur segir stefnt að því að senda skýrsluna í umsagnarferli í næstu viku en það ferli getur tekið einhverja daga. 

Þegar umsagnarferli er lokið er skýrslan send til forseta Alþingis og þaðan til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fær skýrsluna til umfjöllunar. Nefndarmenn fá væntanlega nokkra daga til kynna sér innihald skýrslunnar áður en hún er gerð opinber. 

Sala ríkisins á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka var harðlega gagnrýnd eftir að listi yfir kaupendur var gerður opinber og var ítrekað mótmælt á Austurvelli. Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að sérstakri rannsóknarnefnd á vegum Alþingis yrði gert að fara yfir málið en því var hafnað.