Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm fórust við björgunaraðgerðir á Filippseyjum

26.09.2022 - 06:52
epa10206720 Residents look out from their homes amid flooding caused by typhoon Noru in San Miguel town of Bulacan province, north of Manila, Philippines 26 September 2022. Typhoon Noru crossed the northern Philippine region of Luzon on 25 September and prompted thousands to evacuate due to heavy rain and strong winds. Typhoon Noru is expected to leave the Philippine area of responsibility by evening of 26 September.  EPA-EFE/ROLEX DELA PENA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fimm björgunarmenn á Filippseyjum fórust á svæði þar sem fellibylurinn Noru fer mikinn og eirir engu sem á vegi hans verður. Mennirnir urðu undir vegg sem hrundi yfir þá meðan á björgunarstörfum stóð.

Atvikið varð í sveitarfélaginu Santa Maria, í Bulacan-héraði, sem hefur orðið illa úti af völdum flóða í kjölfar úrhellisrigningar sem fylgir fellibylnum. Fellibylurinn er einn sá öflugasti sem skollið hefur á Filippseyjum í ár og þegar var tekið að rýma heilu þorpin áður en hann gekk á land. 

Sjómönnum í Quezon-héraði, nokkra tugi kílómetra austur af höfuðborginni Manila, hefur verið bannað að sækja sjóinn á næstunni. Rafmagn fór af nokkrum svæðum, að sögn fréttastofu BBC. Íbúum á hættusvæðum í höfuðborginni hefur einnig verið ráðlagt að koma sér í burtu.

Íbúar Filippseyja eru alvanir óveðri á borð við Noru. Talið er að um 400 manns hafi látið lífið í desember í fyrra þegar fellibylurinn Rai skildi eftir sig mikla eyðileggingu.