Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn bálhvasst á Austfjörðum og mikið foktjón

26.09.2022 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Stefanía Hrund - Aðsent
Mikið eignatjón varð í aftakaveðri sem gekk yfir landið í gær. Veðrið bitnaði einna verst á íbúum Austfjarða, þar sem enn er mjög hvasst og ekki hægt að meta umfang skemmdanna. Starfsemi Eimskips á Reyðarfirði liggur enn niðri og mikið foktjón varð hjá Alcoa Fjarðaáli.

Rúður brotnuðu í bílum á Djúpavogi

Björgunarsveit vaktaði báta í höfninni á Borgarfirði eystra í nótt, þar höfðu menn áhyggjur af mikilli ölduhæð, en Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings segir að ekki hafi orðið alvarlegt tjón. Í Berufirði og Álftafirði varð eitthvað foktjón á útihúsum og rúður brotnuðu í bílum á Djúpavogi. Þar fellur allt skólahald niður í dag. 

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir að Austfirðingar muni vart annan eins veðurofsa.

Tjón á stríðsárasafninu

„Það skemmdist einn af bröggunum við stríðsárasafnið töluvert mikið og það skemmdust skemmur í miðbænum, þannig þetta var með ólíkindum þetta veður,“ sagði Jón.

Skemmdir á klæðningu hjá Alcoa en starfsfólk ekki í hættu

Hvassviðrið skall með miklum krafti á Reyðarfjörð, þar sem tré rifnuðu upp með rótum og björgunarsveitir áttu fullt í fangi með að hemja eyðilegginguna þegar þakplötur og annað brak þeyttist um bæinn.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir er upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Álverið var óstarfhæft í tvær klukkustundir þegar rafmagn sló út í óveðrinu. Hún segir þeirra meginverkefni vera að koma starfsemi aftur í eðlilegt horf.

„Það er ljóst að það varð talsvert foktjón hjá álverinu, aðallega vegna klæðninga sem hafa losnað af byggingum. En svona á þessari stundu erum við ekki búin að ná utan um það hversu mikið þetta tjón er.“

Var aldrei hætta á ferðum hjá ykkur?

„Nei, vegna þess að við bönnuðum fólki strax að fara út, við vorum aldrei að senda fólk út í veðrið til að festa eitthvað niður eða koma í veg fyrir fok. Við ákváðum að fólk yrði innanhúss og það yrði bara að koma í ljós hvað myndi fjúka og hvað ekki.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Sigurðsson - Aðsend

Enn of slæmt veður til að meta skemmdir hjá Eimskipi

Mikið tjón varð hjá Eimskipi á Reyðarfirði bæði á húsum og búnaði. Davíð Sigurðarson, svæðisstjóri Eimskips á Austurlandi, segir að veðrið sé enn of slæmt til að fara um starfssvæði fyrirtækisins og skoða aðstæður og meta tjónið. Það verði gert um leið og aðstæður leyfa í dag eða kvöld. 

„Við erum með tjón á húsnæði sem hýsir til dæmis verkstæðið okkar og síðan er einnig tjón á skrifstofueiningum sem eru undir starfsemina okkar á höfninni. Aðeins minniháttar skemmdir á tækjabúnaði eins og gámalyfturum, sem við stefnum á að ná að laga seinna í dag og geta farið með þá í virkni. Töluvert er einnig af gámum sem hafa skemmst.“