
Þórdís sagði Úkraínu þurfa að sigra í þágu mannkyns
Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Hún sagði að árás Rússa yrði að hrinda og þeim sem ábyrgð bera á voðaverkum refsað.
Þórdís gerði mótmæli þúsunda Rússa vegna herkvaðningar Rússlandsforseta að umtalsefni og hrósaði því fólki fyrir hugrekki. Hún sagði það þó geta átt yfir höfði sér þungar refsingar, óréttmæta fangavist, ofsóknir og jafnvel eitthvað annað verra.
Mikilvægi tjáningarfrelsisins
Utanríkisráðherra áréttaði mikilvægi mannréttinda á erfiðum tímum og ekki síst tjáningarfrelsins.
Hún minntist baráttu Svetlönu Tikhanovskayu, leiðtoga hvít-rússnesku stjórnarandstöðunnar, og sagði loks að það væri á grunni þessara gilda sem ekki verði við það unað að Masha Amini hafi látist af barsmíðum í Íran fyrir að bera ekki höfuðklút í samræmi við opinber fyrirmæli.
Framtíðin leiðir skynsemi viðbragða við kórónuveirufaraldrinum í ljós
Þórdís Kolbrún tíundaði ýmsar áskoranir í samtímanum, meðal annars náttúruhamfarir vegna hlýnunar jarðar, fátækt og fæðuskort og hvaða lærdóm mætti draga af heimsfaraldri kórónuveiru.
Hún sagði framtíðina eina leiða í ljós hversu skynsamleg viðbrögð við faraldrinum hefðu verið.
Þórdís sagði fundahamrinum sem notaður er í sal allsherjarþingsins bera með sér dagskrárvald, þótt hann láti lítið yfir sér, en Íslendingar gáfu Sameinuðu þjóðunum hamarinn. Hann ber áletrunina „Með lögum skal land byggja“ sem Þórdís sagði minna á þá reglu sem ríkja á í samskiptum þjóða.
Ævintýrasaga Þórshamarsins
Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, gaf forseta allsherjarþingins nýjan hamar árið 2005 sem var eftirlíking þess hamars sem Ásmundur Sveinsson myndhöggvari bjó til og Thor Thors, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, afhenti árið 1952. Hamarinn var kallaður Þórshamar.
Sá hamar brotnaði árið 1960 við það að þáverandi forseta allsherjarþingsins, Fredericks Bolands, sendiherra Íra barði honum svo fast í fundarborð að hann brast.
Ætlun forseta var að hasta á Nikita Krústsjov, aðalritara kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Árið eftir var hamarinn endurnýjaður með eftirlíkingu eftir Guðmund Benediktsson myndhöggvara. Sá hamar týndist og því var enn annar smíðaður árið 2005 og þá af listakonunni Sigríði Kristjánsdóttur.
Ríki sem brjóta reglurnar fordæmd
Þórdís sagði hinn hefðbundna farveg alþjóðasamskipta að koma saman og skiptast með siðmenntuðum hætti á hugmyndum og skoðunum. Hinsvegar hljóti þau ríki sem reglurnar brjóta fordæmingu undantekningalaust.
„Það er skylda okkar sem leiðtoga, ekki síst okkar sem tilheyrum yngri kynslóðum, að sofna ekki á verðinum í skjóli þess sem hefur áunnist undanfarna áratugi,“ sagði Þórdís .
Við verðum að láta einskis ófreistað að styðja við hið alþjóðlega kerfi og sannfæra íbúa heims um að þrátt fyrir vankanta sé það miklu betra en nokkur önnur leið til þess að leysa úr ágreiningi milli ríkja.“