Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ræða eingreiðslu til færeyskra heimila í kröggum

Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Lögþing Færeyja ræðir í næstu viku frumvarp þess efnis að hvert heimili í landinu fá allt að sjö þúsund danskra króna eingreiðslu vegna hækkandi matar- og orkuverðs. Lögmaður Færeyja boðaði slíka greiðslu í Ólafsvökuávarpi sínu í sumar.

KVF fjallar um málið í tveimur fréttum. Lítið hefur frést af fyrirhugðum styrk landstjórnarinnar eftir að Bárður á Steig Nielsen lögmaður sagði í sumar efnahagslegt illviðri í uppsiglingu með sífellt hækkandi framfærslukostnaði heimila í landinu.

Hann tiltók sérstaklega að verð á olíu væri orðið íþyngjandi, matvælakostnaður sömuleiðis auk þess sem vextir væru á uppleið. Því yrði heimilum í vanda veittur styrkur sem næmi sjö þúsund krónum dönskum eða jafngildi ríflega 130 þúsundum íslenskra króna.

Frumvarp um svokallaðan olíustyrk er nú tilbúið sem félagsmálaráðherrann Sólvit Nolsø leggur fyrir lögþingið í næstu viku. Hann segir að hlutfall greiðslu taki mið af heildartekjum heimila og öðrum ótilgreindum þáttum og komi til greiðslu fyrir árslok.

„Það er deginum ljósara að þörfin er brýn enda eru fjölmörg heimili í kröggum,“ segir Nolsø og bætir við að fleiri hugmyndir séu á teikniborðinu fyrir fjárlagafrumvarp næsta árs. Þó sé þetta eina frumvarp fast í hendi enda þurfi fjöldi ráðuneyta að koma að ákvarðanatöku um næstu skref.