Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hálfsextugir kallar að væflast í sjoppu

Mynd: SH Draumur, Prins Póló / SH Draumur, Prins Póló

Hálfsextugir kallar að væflast í sjoppu

25.09.2022 - 09:00

Höfundar

Tveir sjóðheitir smellir úr smiðju Prins Póló og S.H. Draums litu nýlega dagsins ljós. Þetta eru lögin Sjoppan og Draumaprinsessan og myndband er væntanlegt við fyrrnefnda lagið. „Við erum bara eitthvað að væflast þarna í sjoppu í Breiðholti og reykja fyrir utan og hrækja og svona. Þetta er það sem hálfsextugir kallar gera,“ segir Dr. Gunni, söngvari og bassaleikari sveitarinnar.

Smáskífusamstarf hljómsveitarinnar S.H. Draumur og Prins Póló kom út nýlega. Hugmyndin að samstarfinu kviknaði í viðtali í Rokklandi á Rás 2. „Þú ert ljósmóðirin, Óli ljósmóðir,“ sagði Gunnar Lárus Hjálmarsson, Dr. Gunni, glettinn við Ólaf Pál umsjónarmann þáttarins. Ólafur tók viðtal við Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, í júní og þar lýsti Svavar því yfir að draumasamstarfsverkefni hans væri með uppáhaldshljómsveit unglingsára sinna, S.H. Draum. Nú hefur draumurinn ræst og tvo splunkuný lög litið dagsins ljós. Þeir ræddu við Rokkland á Rás 2 um samstarfið.  

Heyrði rokkið í gegnum svefnherbergisvegginn 

S.H. Draumur voru starfandi frá 1982-1988. Dr. Gunni var söngvari og bassaleikari sveitarinnar. „Við vorum bara mjög ungir og gé-err-aðir og til í að setja mark okkar á íslenska tónlistarsögu.“ Hann segir þá hafa stigið fram á sjónarsviðið í kjölfar hinnar goðsagnakenndu Rokk í Reykjavík-bylgju, þar sem pönkið var í algleymingi. „Þá tók við að okkar mati mjög leiðinlegt tímabil, sem var þetta eitís.“ 

„Við vorum mjög hrokafullir ungir menn og vorum að móðga alla. Endalaust diss og bara ömurlegir gaurar,“ rifjar Dr. Gunni upp. Svavar Pétur hreifst af þessari orku Draums-manna. „Ég heyrði bara eitthvað nýtt, eitthvað sem ég hafði ekki heyrt áður, eitthvað kærkomið.“ Hann heyrði fyrst í S.H. Draumi í gegnum herbergisvegginn sinn þegar að systir hans var með plötu sveitarinnar, Goð, á fóninum. „Svo þegar að hún var ekki heima þá fór ég inn til hennar og stalst í plötuna og fannst þetta vera eitthvað nýtt og ferskt og framandi og heillaðist af þessu.“ 

Prins Póló var heltekinn af Sex Pistols 

Hljómsveitin var frábrugðin þeirri eitís-tónlist sem var vinsæl á þessum tíma og það var með ásetningi gert. „Enda höfðum við megnustu óbeit á samferðafólki okkar,“ segir Dr. Gunni hlæjandi. Hljómsveitin var undir áhrifum frá pönki og nýbylgjurokki. Þeir voru heillaðir af grófum og óhefluðum hljóðheimi sem þeir reyndu að tileinka sér.  

Svavar kynntist hljómsveitinni í þann mund sem hann byrjaði að grúska í tónlist sem táningur. „Þá kannski opnast nýr heimur fyrir manni og maður fer að hlusta á meira. Ég hlustaði mest á Sex Pistols, enda gekk ég undir nafninu Svabbi Pistols og geri enn hjá góðum vinum.“ 

„Það er dálítið fyndin saga. Þegar að ég var 12 ára var ég að læra á gítar í tónskóla Sigursveins. Ég held að ég hafi lært hálfan vetur á klassískan gítar og Steini var kennarinn minn,“ rifjar Svavar upp. Steini var gítarleikari nýju uppáhaldshljómsveitar hans, S.H. Draumur. „Ég var alltaf heima að hlusta á S.H. Draum. Svo kom ég í tíma til hans og setti mig í klassískar stellingar.“ Hann segist ekki hafa haft mikinn áhuga á klassískum gítarleik og aldrei þorað að segja gítarkennaranum sínum frá ást sinni á hljómsveitinni. „Ég þorði aldrei að segja honum að ég væri að hlusta á hann. Maður var bældur og krumpaður ungur maður og fannst það eitthvað skrítið.“ 

Unnu hratt og örugglega 

„Ég og Svabbi Pistols vorum búnir að hittast svolítið og semja þessi lög saman,“ segir Dr. Gunni. Þeir Svavar Pétur hittust tvisvar og sömdu tvö lög áður en að hljómsveitin var kölluð saman. „Biggi trommari kom frá Eskifirði, alveg spólgraður og við fundum sánd og hentumst í þetta. Steini gítarleikari er nú aðallega að kenna klassískan gítar hjá Suzuki-skólanum þannig að það tók smá tíma að komast í haminn en það tókst að lokum.“ Þeir félagar fóru í Hljóðrita í Hafnarfirði og tóku upp lögin. „Við negldum þetta inn á einum 9 til 5 degi,“ segir Dr. Gunni. 

„Þessi textagerð gerðist mjög hratt og mjög spontant,“ segir Svavar Pétur. Dr. Gunni tekur undir. „Það er mjög grunn hugsun á bak við þessa texta.“ Textarnir voru samstarfsverkefni og þeir félagar voru með vinnuskjal sem þeir fylltu inn í til skiptist. Þeir eru báðir þekktir fyrir glettna texta sem glögglega má heyra í samstarfi þeirra. 

Þurftu tvær spólur fyrir myndbandið 

Tónlistarmyndband fyrir lagið Sjoppan er í vinnslu og það er enginn annar en grínistinn Ari Eldjárn sem býr það til. „Hann er að breiða út fagnaðarerindi Super 8-filmunnar,“ segir Svavar. Myndbandið var tekið upp í Breiðholti. „Við erum bara eitthvað að væflast þarna í sjoppu í Breiðholti og reykja fyrir utan og hrækja og svona. Þetta er það sem hálfsextugir kallar gera,“ grínast Dr. Gunni.  

Myndbandið var sem sagt tekið upp á filmu. „Þeir sem þekkja Super 8, þetta eru litlar spólur, þrjár mínútur hver spóla,“ segir Svavar. Lagið er fjórar mínútur og því þurfti tvær spólur til fyrir myndbandið. Þær eru nú í framköllun og þeir bíða því spenntir eftir útkomunni. „Ari er bara sveittur núna, as we speak,“ segir Dr. Gunni.  

Blásið verður til tónleika á Húrra 22. október til að fagna samstarfinu. „Prins Póló og S.H. Draumur, saman og í sitt hvoru lagi,“ segir Dr. Gunni. S.H. Draumur koma þá saman í þriðja sinn síðan að þeir hættu 1988. „Fyrst var ‘93, svo 2019 og svo núna. Allt er þegar að þrennt er.“ 

„Ég á enn þá eftir að ákveða hvað ég geri, en það kemur í ljós. Ég verð búinn að ákveða það fyrir tónleikadag,“ segir Svavar Pétur.  

Rætt var við Gunnar Lárus Hjálmarsson og Svavar Pétur Eysteinsson í Rokklandi á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Er með rosa litlar framtíðarpælingar en mikið í núinu“

Innlent

Prinsinn og dauðinn

Tónlist

Dr. Gunni og Hipsumhaps spældu geitung á fyrsta fundi

Innlent

Klósettum í Bankastræti breytt í pönksafn