Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Búist við aftakaveðri á austurhluta landsins

25.09.2022 - 07:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Sérlega öflug lægð er nú fyrir norðan land og sendir hún vorðvestan vindstreng yfir austurhluta landsins í dag sem veldur aftakaveðri á þeim slóðum. Í dag má búast við norðvestan stormi eða roki á austurhelmingi landsins og jafnvel ofsaveðri á Austfjörðum, en þar hefur verið gefin út rauð viðvörun. Slík viðvörun er ekki gefin út nema um hættulegt veður sé að ræða og því er mikilvægt að sleppa ferðalögum og huga að eigin öryggi.

Það ber að taka það skýrt fram að vestanvert landið sleppur við óveður í dag, þar lægir vind með morgninum og skaplegt veður verður eftir hádegi, segir í pistli veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Eftir hlýindi í gær, þá dregur áðurnefnd lægð kalt heimskautaloft yfir landið í dag og það kólnar snögglega. Á Norður- og Austurlandi má búast við rigningu nærri sjávarmáli, en slyddu eða snjókomu á heiðum og til fjalla. Sunnan- og vestanlands verður hins vegar þurrt og bjart veður. 

Á morgun er útlit fyrir fremur hægan vind á vesturhelmingi landsins. Austanlands er spáð norðvestan hvassviðri eða stormi á morgun, sem eru þá leifarnar af illviðri dagsins í dag. Víða þurrt og bjart veður, en rigning eða slydda um tíma á Austurlandi. Hiti 2 til 9 stig yfir daginn, mildast við suðurströndina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV