Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vildi að Ísland hefði tekið á móti miklu fleiri Afgönum

24.09.2022 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lygilegt er fyrsta orðið sem kemur upp í huga Árna Arnþórssonar, aðstoðarrektors Ameríska háskólans í Afganistan, um atburðarásina sem fór af stað þegar Talibanar náðu völdum í ágúst í fyrra. Hann stjórnar aðgerðum til að koma fólki úr landi. Hann segir það hafa sviðið að sjá hversu auðvelt það var fyrir íslensk stjórnvöld að taka á móti hundruðum Úkraínumanna á nokkrum vikum á meðan það virtist erfitt að koma fyrir 120 Afgönum.

Myndir af örvæntingafullu fólki að reyna komast inn á alþjóðaflugvöllinn i Kabúl eru líklega greyptar í minni margra. Foreldrar að rétta hermönnum börn sín í von um að þeim verði bjargað og hundruð hlaupandi á eftir þotum á leið í loftið. Og mitt í hringiðunni var Íslendingur.  Árni Arnþórsson aðstoðarrektor American University of Afghanistan.  Heimskviður náðu tali af Árna sem var með erindi á haustráðstefnu Advania í Hörpu nýverið.

Nýjasti þáttur Heimskviða er aðgengilegur hér: 

Skólinn sérstakt skotmark Talibana

Verkefni aðstoðarrektorsins Árna breyttust á svipstundu í ágúst á síðasta ári, þegar hann var fenginn til þess að stjórna aðgerðum við það að reyna að koma nemendum og starfsfólki úr landi. Enda vissu þau fyrirfram að skólinn væri sérstakt skotmark Talibana, sem þá voru nýbúnir að ná völdum í landinu. „Talibanar töluðu oft um háskólann og töldu hann vera stað þar sem væri verið að spilla unga fólkinu í Afganistan. Og svo var náttúrulega ráðist á skólann 2016. Í fyrsta lagi var tveimur prófessorum rænt og þeir voru í haldi til 2020, í rúm fjögur ár. Skömmu seinna var ráðist á skólann sjálfan. Hópur Talibana braust inn að kvöldi til og sextán manns voru drepnir og yfir hundrað særðir í ágúst 2016,“ segir Árni. 

Þá munaði litlu að skólanum væri lokað en ákveðið var að setja öryggismál í fyrirrúm. Nokkurra metra háir veggir voru reistir og keyptir brynvarðir bílar. Í starfi sínu þurfti Árni að ferðast um Kabúl til funda við embættismenn og aðra í samfélaginu. „Og ég fór alltaf í brynvörðum bíl. Með tvo í þeim bíl, með bíl fyrir aftan og bíl fyrir framan. Samtals sex lífverðir. Mig minnir að ég hafi heitið A36 þegar það var talað um mig, það mátti ekki segja nöfnin eða neitt svoleiðis. Þú heyrðir í sprengju svona einu sinni í viku. Þú heyrðir byssuskot á hverjum degi. Og þú hættir að kippa þér upp við það eftir smá tíma.“

Og þetta var áður en Talibanar komust til valda. 

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Þór Arnþórsson - Aðsend
Talibanar birtu mynd af sér fyrir framan skólann stuttu eftir að þeir náðu Kabúl. Til hægri við þá má sjá svenherbergisglugga Árna.

Árni segir að í byrjun síðasta árs hafi þeim verið orðið ljóst, miðað við skýrslur sem skólayfirvöld höfðu aðgang að, að Talibanar gætu komist aftur til valda. „Þá fórum við að byrja að undirbúa ákveðna hluti eins og að kaupa pláss í skýinu. Fara að setja okkar upplýsingar þar upp. Við vorum ekkert að gera það hratt. Við héldum ekki að þetta myndi gerast svona skjótt eins og það gerðist.“  Í apríl ákvað svo Joe Biden Bandaríkjaforseti að kalla allt herlið heim frá Afganistan. 

Brenndu allt og eyðilögðu tölvur

Talibanar efldu sókn og unnu á sitt vald hvert landsvæðið af öðru og í ágúst voru þeir komnir nálægt Kabúl. „En Ghani, forseti Afganistan þá, hann fór á fundi þá viku sem þetta gerist og við héldum, ok það eru einhverjir samningar í gangi og kannski munu Talibanar koma inn svona smátt og smátt og koma inn í stjórnina. En það sem við gerðum ekki ráð fyrir var það að hann og hans fylgdarlið hverfa á föstudeginum. Og þá vissum við hvað klukkan sló. Og þá var farið í það að brenna allt sem hægt var að brenna. Í sambandi við skýrslur og þess háttar. Það var ótrúlegt magn af pappír og skýrslum sem var brennt, tölvur voru eyðilagðar,“ segir Árni. 

Þegar þetta gerðist var Árni farinn frá Afganistan. Skólinn ákvað að einn stjórnendanna þyrfti að vera annars staðar og stjórna því að koma fólki úr landi. Og það kom í hlut Árna. „Þá byrjaði atburðarás sem var raunverulega lygileg. Og eins og margir hafa bent á. Það er ekki hægt að upplifa það sem gerðist með öðrum, því einungis ef þú hefur upplifað þetta þá skilur þú hvernig þetta var.“

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Þór Arnþórsson - Aðsend
Nemendur við American Unversity of Afghanistan, áður ern Talibanar komust til valda.

„Við þurftum að búa til lista af fólki og athuga hverjir voru í hættu og hverjir voru ekki í hættu. Raunverulega segja náttúrulega allir að þeir séu í hættu í Afganistan. En við lögðum strax áherslu á að koma kvenfólkinu út. En þetta reyndist líka vera alveg gífurlegt álag því að síminn minn stoppaði þá ekki næstu fjórtán, fimmtán daga. Í raun og veru alla nóttina og allan daginn, “ segir Árni sem telur að vel á annað þúsund manns hafi leitað til sín á þessum tíma. Um 850 nemendur, 350 starfsmenn, útskrifaðir nemendur sem skipta hundruðum og svo aðrir sem höfðu einhver tengsl við skólann. Öllu þessu fólki var bent á að hafa samband við Árna. 

Bandaríkjastjórn olli vonbrigðum

Þrátt mikla vinnu og samtöl við sendráð ýmissa ríkja tókst þeim aðeins að koma 46 manns út í ágúst í fyrra. „Sem voru náttúrulega mikil vonbrigði fyrir okkur. Við þurftum að treysta á stjórnir landa að gera eitthvað fyrir okkur. Bandaríkjastjórn olli vonbrigðum. Þeir voru náttúrulega að hugsa um ákveðið fólk. Og við héldum að við værum mikilvægari heldur en við vorum gagnvart þeim, má segja. Þeir voru ekki tilbúnir til þess að hleypa okkar fólki inn á flugvöllinn,“ segir Árni. 

epa09618957 Afghans struggle to reach the foreign forces to show their credentials to flee the country outside the Hamid Karzai International Airport, in Kabul, Afghanistan, 26 August 2021. At least 13 people including children were killed in a blast outside the airport on 26 August. The blast occurred outside the Abbey Gate and follows recent security warnings of attacks ahead of the 31 August deadline for US troops withdrawal.  EPA-EFE/AKHTER GULFAM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um tíma var nánast ógerlegt að komast inn á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl.

En hvernig tekst Árni á við það að vera aðstoðarrektor og vera svo allt í einu kominn í þá stöðu að taka ákvarðanir sem gætu sett líf fólks í hættu? „Ég gerði mér grein fyrir því á ákveðnum tímapunkti, að ég var sá sem þurfti að gera þetta og það var enginn annar sem hafði upplýsingarnar og kunnáttuna sem þurfti til þess að gera þetta. Þannig að ef ég hætti, þá yrði það vandamál.“

Árni segist hafa haft gott teymi í kringum sig. Í september í fyrra tókst þeim að koma 100 manns frá Afganistan, landleiðina til Pakistans og þaðan yfir til Kyrgistans. „Þetta var svona eins og í bíómynd. Það var sérsveitarlið frá Finnlandi sem kom þeim yfir landamærin fimm í einu. Og við fengum vilyrði frá Pakistanstjórninni um að koma þeim í gegn inn til Kyrgistan. Þeir eru miklu erfiðari að eiga við núna heldur en þeir voru í fyrra þegar þetta var allt saman að gerast. Þess vegna var ég í Pakistan til þess að hjálpa við það. Við vorum með fólk sem var í Islamabad í vikur og daga. Við erum reyndar ennþá með hóp þar. Ég er búinn að vera að leigja hús þar í næstum því heilt ár sem er svona safe house,“ segir Árni. 

Árni segir að fólkið sem komst til Kyrgistan sé í ágætisstöðu. Þau stunda nám við háskóla og eru mörg hver orðin fullgildir nemendur þar. En í október fór um 80 manna hópur gegnum Katar til Kúrdistans í Írak og staða þeirra er ekki eins góð. „Það er kannski erfitt að setja fingurinn á það hvað hefur gerst en það hefur verið mjög erfið dvöl þar. Nemendur hafa lent í vandræðum, við höfum haft tvær stelpur sem hafa reynt að fremja sjálfsmorð.“ Nú er verið að reyna að koma þeim nemendum til Bandaríkjanna en það er langt og strangt ferli. Læknisskoðun, bakgrunnstékk og mörg viðtöl.  

Vill að Ísland taki á móti fleiri Afgönum

Þegar Kabúl féll í hendur Talibana komst Árni í samband við tvær konur hér á Íslandi. „Ein þeirra hafði unnið í Afganistan og önnur þeirra var í menntakerfinu hér og sagði ok er eitthvað sem hægt er að gera hér. Og upp úr því var teymi hér heima af konum sem voru bara algjörlega frábærar.“ Að miklu leyti vegna þeirra verka, segir Árni, ákváðu íslensk stjórnvöld að taka á móti 120 Afgönum. 

„Við vildum miklu fleiri. Og ég reyndi að athuga hvort ég gæti komið mínu starfsfólki kannski hingað, eitthvað af nemendunum, það gekk ekki upp. Í nokkrum viðtölum þá hef ég  gagnrýnt þetta. Og það sveið dálítið, þegar ég sá hvað gerðist núna í vor. Úkraínumenn áttu skilið hjálp og ég hef ekkert út á það að setja. En það sveið dálítið að innan tveggja mánaða frá byrjun Úkraínustríðsins voru komnir 400 Úkraínumenn hingað og búið að koma þeim fyrir og allt var í lagi en þá var ekki ennþá búið að koma öllum 120 sem áttu að koma frá Afganistan,“ segir Árni. 

Samkvæmt upplýsingum frá Útleningastofnun eru 78 einstaklingar af þeim sem var boðið hingað til lands frá Afganistan komnir til landsins. Fimm manna fjölskylda þáði ekki boð um að flytjast til Íslands og fjörutíu einstaklingar fengu að dveljast í öðrum ríkjum. „Þar fyrir utan hafa um 70 ríkisborgarar Afganistan komið til landsins og sótt um alþjóðlega vernd á eigin vegum frá því í ágúst 2021 en um fjórðungur þeirra hafði þegar fengið vernd í öðru Evrópulandi,“ segir í skriflegu svari frá Útlendingastofnun.

Reyna enn að koma sínu fólki úr landi

Nú ríflega 13 mánuðum frá valdatöku Talibana er Árni enn að reyna að koma sínu fólki úr landi. Stærstur hluti þeirra enn eru í Afganistan eru karlmenn. „Það sem gerist í sambandi við landvistarleyfi, Katar til dæmis er mun viljugra að taka inn kvenfólk og Bandaríkin líka. Sem er mjög skiljanlegt ég er ekkert að setja út á það en það eru þá náttúrulega karlmennirnir sem eru eftir. Þannig að við erum með þennan hóps, sem við vorum búin að segjast ætla að reyna að ná út. Mun það allt saman gerast? Ég veit það ekki. Ég hef svona rúmlega 100 pláss sem stendur og ég er með rúmlega 200 manns. Þannig að hvað gerist með hina 100 hreinlega veit ég ekki,“ segir Árni. 

Og þau sem enn eru föst í Afganistan búa við mikinn skort og mikla hættu á degi hverjum. „Staðan í Afganistan er hræðileg. Meira og minna er fólk með rafmagn kannski tvo til þrjá tíma á dag. Margt af þessu fólki er fátækt. Það er náttúrulega geysimikið atvinnuleysi núna. Og minna um peninga og minna um allt. Það er hungursneyð í gangi sem enginn vill kannski tala um. Það hefur verið minna um það núna í sumar vegna þess að það var hægt að rækta hitt og þetta en við vitum að þetta verður skelfilegt í vetur.“

epa10149513 The Taliban celebrate the first anniversary of the US withdrawal outside the building of the former US embassy in Kabul, Afghanistan, 31 August 2022. The Taliban government on 30 August, declared 31 August as a national day in Afghanistan, as part of the celebrations marking the first anniversary of the withdrawal of US troops and the end of two decades of foreign invasion.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talibanar fagna eins árs valdaafmæli í ágúst.

Árni hlær við þegar ég bið hann að lýsa síðasta ári með einu orði. „Einu orði! Lygilegt. Þetta er búið að vera lygilegt. Það eru til margar sögur þar sem ég hef stundum bara stoppað og hlegið. Það er ekki hægt að trúa þessu að þetta hafi gerst, að ég hafi þurft að gera eitthvað sem ég bjóst ekkert við því að ég myndi nokkurn tíman þurfa að gera. Þannig að ég held að lygilegt sé besta orðið yfir mína reynslu.“

Hann segir ekkert rétt eða rangt þegar kemur að þeim ákvörðunum sem hann hefur þurft að taka. „En hins vegar er ég, kannski til þess að sætta mig við það sem ég hef gert, ég þarf að vera með það hugarfar að ég hafi gert rétt. Því ef ég fer að hugsa eitthvað annað þá held ég að ég geti ekki tekið góðar ákvarðanir.“

Í síðasta mánuði reyndi Árni að koma um 100 manns úr landi. Af þeim voru tæplega 70 konur, og allar nema ein voru stoppaðar á flugvellinum. „Þetta var mjög erfitt. Þær voru mjög hræddar. Við vissum ekki hvað myndi gerast. Allavegana, þær voru stoppaðar. Við komum strákunum út og einni stúlku sem að vildi svo til að bróðir hennar var að fara líka. Þannig að hún komst út, hann var hennar fylgdarmaður,“ segir Árni. 

Samkvæmt reglum Talibanastjórnarinnar mega konur nefnilega ekki ferðast án eiginmanns eða karlkyns ættingja. En síðan þá hefur Árna og teymi hans tekist að koma ellefu af þeim stúlkum landleiðina frá Afganistan, þar af þremur bara í síðustu viku. „Þetta hefur verið að gerast núna. Að reyna að ná þessum stúlkum út eins flljótt og auðið er. Þetta gleymist bara í öllu en þetta er það sem hefur verið að gerast síðast og hefur tekið mestan minn tíma síðastliðnar vikur síðan 25. ágúst þegar við ætlum að ná þessum stúlkum út og það mistókst.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV