Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tunglskoti frestað þriðja sinni - nú vegna veðurs

epa10157265 The SLS rocket with an Orion capsule, part of the Artemis 1 mission, is ready for the second launch attempt at the pad 39B in the Kennedy Space Center in Merrit Island, Florida, USA, 03 September 2022. NASA will attempt to launch Artemis 1 mission for the second time after the first attempt was postponed on 29 August due to engine issue that was identified and fixed. The Artemis 1 mission is an uncrewed test flight of the Orion spacecraft and the first launch of the SLS. The Artemis, the US space agency's first crewed Moon mission since Apollo 17 in 1972, is a space mission with the goal of landing the first female astronaut and first astronaut of color on the Moon.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA
Geimferðastofnun Bandaríkjanna ákvað í dag að fresta jómfrúrferð Artemis áætlunarinnar vegna hitabeltisstorms á Karíbahafi sem hætta er á að verði sterkur fellibylur.

Þetta er í þriðja sinn sem NASA neyðist til að fresta því að skjóta á loft eldflaug með ómannað Óríon far. Til stóð að tunglskotið yrði næstkomandi fimmtudag en nú er það hitabeltisstormurinn Ian sem stöðvar áformin.

Veðurfræðingar telja að hann verði orðinn að fellibyl á mánudag og skelli af fullum krafti á ströndum Flórída á fimmtudaginn. Leki í eldsneytisgeymum og önnur tæknileg vandamál urðu til að fresta skotinu í fyrri skiptin tvö.

Ákvörðun verður tekin á morgun, sunnudag um hvort 98 metra há eldflaugin verður fjarlægð af skotpallinum og flutt í skjól undan veðurofsanum. 

Artemis-áætlunin miðar að því að koma mönnum til tunglsins að nýju og langtímamarkmiðið er að senda fólk til reikistjörnunnar Mars. 

Eitt meginmarkmið jómfrúrferðarinnar er að láta reyna á varnarskjöld Óríon geimhylkisins meðan það fer á ægihraða gegnum lofthjúp jarðar. Gínur búnar margvíslegum skynjurum sitja í sætum þess. 

Skynjurunum er ætlað að mæla titring, hröðun og geislun innanborðs í hylkinu. Geimhylkið hringsólar tunglið áður en það snýr til jarðar og lendir í Kyrrahafi. 

 

Það verður mikill léttir fyrir forsvarsfólk Artemis áætlunarinnar þegar jómfrúrferðin verður að baki. Næsta skref geimferðastofnunarinnar er svo að senda mannað far, Artemis 2, á sporbaug um tunglið.