Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þetta gætir verið þú, mamma þín eða pabbi“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talið er að um 5 þúsund manns séu með heilabilun á hér á landi. Spár gera ráð fyrir því að árið 2050, eftir tæpa þrjá áratugi verði fjöldinn kominn í 15 þúsund. Alzheimersamtökin kalla eftir auknu fjármagni til starfseminnar sem að stærstum hluta er unnið af sjálfboðaliðum.

„Fram undan er gríðarleg aukning i þessum málaflokki, fólksfjöldinn verður svo mikill og okkur sýnist stjórnsýslan og kerfið ekki vera tilbúið að taka við því,“ segir Vilborg Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna. 
 
Til að vekja athygli fólks á alzheimer-sjúkdómnum ók fjólublár strætisvagn um höfuðborgarsvæðið í dag. Fólki bauðst að taka sér far með vagninum og fræðast um starfsemi samtakanna. Í mörgum sveitarfélögum hefur verið komið fyrir fjólubláum bekkjum til að minna á sjúkdóminn.

„Við upplifum að fólk fái greiningu og sé síðan sent heim. Það var engin þjónusta í boði fyrr en við opnuðum þjónustumiðstöðina Seigluna St. Jósepsspítala í Hafnarfirði. Við erum með tæplega 3 stöðugildi og svo erum við með 10-15 sjálfboðaliða sem eru "standby" og koma reglulega sem er algjörlega ómetanlegt. Við gætum þetta ekki án þeirra. Það segir sig sjálft að vera með 30-50 manns rúllandi í gegn á hverjum degi á tveimur og hálfu stöðugildi.“

Samtökin hafa reiknað út að um 11 þúsund Íslendingar vinna ólaunuð störf við umönnun fólks með heilabilun. Á hverju ári greinast rúmlega tuttugu manns yngri en 65 ára með sjúkdóminn og talið er að þeir séu nú tæplega tvö hundruð.

„Þetta er grafalvarlegt og það hljóta allir sem velta því fyrir sér að sjá það,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður Alzheimersamtakanna.

Hún segir að almenningur og stjórnvöld verði að átta sig á því að ekki sé hægt að bíða í 10-15 ár, taka þurfi fast á málum og það strax.

„Við stöndum frammi fyrir því Íslendingar, samfélagið okkar að það er yngra og yngra fólk að veikjast af þessum sjúkdómi, það er ekkert sem grípur það. Nú langar mig að segja við fólkið í landinu, þetta gæti verið þú, þetta gæti verið mamma þín, þetta gæti verið pabbi þinn. Komdu með og styrktu Alzheimersamtökin með einum eða öðrum hætti, hvettu stjórnvöld til þess að gera slíkt hið sama vegna þess að sameiginlegt átak okkar mun skipta máli,“ segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir formaður samtakanna.

Arnar Björnsson