Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kartöflumygluspálíkan gæti forðað uppskerubresti

Mynd með færslu
 Mynd: Ráðgjafamiðstöð Landbúnað - RÚV
Unnt verður að koma í veg fyrir uppskerubrest af völdum myglu í kartöflurækt með nýju spálíkani. Kartöflubændur geta nú komið sér upp lítilli veðurathugunarstöð í kartöflugarðinum og tengst inn á spálíkan á netinu og séð þannig hvort grípa þurfti til ráðstafana þegar mygluveður brestur á.

Veðrið lék sunnlenska kartöflubændur grátt í fyrrasumar. Vætutíðin varð til þess að mygla komst í kartöflugarða í Þykkvabæ í fyrsta sinn í 20 ár. Helgi Jóhannesson er ráðunautur garðyrkju hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins.

„Kartöflumygla er sjúkdómur sem leggst á kartöflur í ræktun. Með því að fylgjast með ákveðnum veðurþáttur er hægt að spá fyrir um hættuna á myglu,“ segir Helgi.

Hvers konar veðurfar ýtir undir myglu?

„Það er fyrst og fremst hár loftraki og hitastig sem er yfir 10 gráðum,“ segir Helgi.

Í ár var svo unnið að lausnum og í ágúst var sett upp lítil veðurathugunarstöð við kartöflugarðana í Þykkvabæ. 

„Þetta er dálítið tilraunaverkefni sem við settum upp í sumar. Við keyptum veðurstöð sem er sólardrifin. Hún er beintengd við kerfi sem er starfrækt úti í Danmörku í háskólanum úti í Árhúsum. Þar eru lesin veðurgögn jafnóðum og þau verða til. Útfrá þeim er reiknuð út hættan á myglunni,“ segir Helgi.

Þannig geta bændur brugðist við og úðað mygluvörn þegar mygluveður vofir yfir. En líka sparað úðann þegar von er á góðu veðri.

„Það bæði sparar þá bændum þennan kostnað og umhverfisskaðinn verður minni,“ segir Helgi.