Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Héraðsdómur synjaði tveggja vikna gæsluvarðhaldi

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Lög­regla krafðist tveggja vikna gæsluvarðhalds yfir báðum mönnunum sem nú sæta varðhaldi vegna rann­sókn­ar á skipu­lagn­ingu hryðju­verka­árás­ar. Héraðsdómur féllst ekki á þá beiðni í tilfelli annars þeirra. Lögregla lítur málið enn mjög alvarlegum augum.

Sérsveit ríkislögreglustjóra handtók fjóra íslenska karlmenn á þrítugsaldri á miðvikudag vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka. Tveir voru úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Að sögn Gríms Grímssonar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fundust á fimmta tug skotvopna og skotfæra við rannsókn málsins, meðal annars hálfsjálfvirkar byssur og þrívíddarprentarar sem notaðir voru við framleiðslu vopna. Rannsókn lögreglunnar er enn á frumstigi en lögregla er enn á því að málið sé mjög alvarlegt. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn sagði við fréttastofu fyrr í dag að lögregla ynni í kappi við tímann þar sem gæsluvarðhaldsúrskurður yfir öðrum manninum rennur út strax í næstu viku. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið í dag. 

Atburðarásin hófst í febrúar

  • 13. febrúar: Skotárás í miðbæ Reykjavíkur. 
  • 13. september: Maður handtekinn vegna gruns um vopnalagabrot. 
  • 20. september: Maðurinn laus úr gæsluvarðhaldi. 
  • 21. september: Fjórir menn handteknir í aðgerðum sérsveitarinnar. Þar á meðal sami maðurinn og sleppt var 20. september.
  • 22. september: Tveir mannanna eru úrskurðaðir í viku og tveggja vikna gæsluvarðhald. 

Lögregla komst á spor mannanna, sem voru handteknir á miðvikudag, eftir skotárás í miðbæ Reykjavíkur í febrúar, þar sem karlmaður var skotinn í brjóstið með þrívíddarprentuðu skotvopni. Ríkislögreglustjóri sagði við fréttastofu í gær að húsleit lögreglu fyrir um tveimur vikum, þar sam lagt var hald á skotvopn, hafi leitt til þess að lögregla kom upp þetta mál. Í kjölfar húsleitarinnar var einn maður handtekinn og sætti hann einangrun í viku vegna gruns um vopnalagabrot. Honum var sleppt úr haldi 20. september en handtekinn strax daginn eftir vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka ásamt þremur öðrum. Tveimur mannanna var síðan sleppt en tveir þeirra voru úrskurðaðir í viku og tveggja vikna gæsluvarðhald. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir meðal annars sagðir hafa talað saman um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglu í næstu viku. Lögregla fór fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir báðum mönnunum en héraðsdómur féllst ekki á þá beiðni í tilfelli mannsins sem hafði nýlega verið sleppt úr haldi.

„Ömurlegt að mál úr barnæsku sé dregið fram“

Enn er verið að skoða möguleg tengsl mannanna tveggja við erlenda öfgahópa og hvað það var í raun sem þeir höfðu í hyggju. Komið hefur fram í fjölmiðlum að sérsveitin hafi árið 2009 handtekið annan sakborninganna, þegar hann var aðeins 12 ára. Lögmaður hans segir í samtali við fréttastofu að það sé ömurlegt að fjölmiðlar fjalli um það sem hann kallar uppákomu þegar skjólstæðingur hans var barn og gagnrýnir nafnbirtingu hans þar sem ákæra hefur ekki verið gefin út.