Raisi segir málfrelsi ríkja en upplausn sé ekki liðin

epa10196910 President Seyyed Ebrahim Raisi of Iran delivers his address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 21 September 2022.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ebrahim Raisi, forseti Írans, segir málfrelsi ríkja í landinu en að stjórnvöld geti ekki sætt sig við upplausnarástand. Að minnsta kosti 17 eru látin í fjölmennum mótmælum vegna dauða ungrar konu í haldi siðgæðislögreglu.

Raisi lét framangreind orð falla í ávarpi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann staðhæfði jafnframt að rannsókn væri hafin á andláti Masha Amini, 22 ára kúrdískrar konu sem sterkur grunur leikur á að siðgæðislögregla Írans hafi myrt. 

Ekkert varð af viðtali Christiane Amanpour, fréttamanns CNN, við Raisi eftir að hún hafnaði því að bera slæðu meðan hún ræddi við hann. „Við erum í New York, þar sem hvorki lög né hefðir skylda mann til að bera slæðu,“ skrifaði hún á Twitter.

Amini var handtekin vegna þess að lögreglumönnum þótti slæða sem hún bar ekki hylja hár hennar nægilega. Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur sett siðgæðislögreglu Írans á svartan lista og telur hana bera ábyrð á dauða Amini.

Yfirvöld í Íran hafa skrúfað fyrir síma- og netsamband víða um landið og yfirvöld vara almenning við þátttöku í mótmælum, sem gæti leitt af sér saksókn.

Mannréttindasamtök telja að mun fleiri séu látnir en opinberar tölur gefa til kynna.

„Almenningur flykkist út á götur til að krefjast almennra mannréttinda og virðingar en ríkisstjórnin svarar með byssukúlum,“ segir Mahmood Amiry-Moghaddam, forstöðumaður íranskra mannréttindasamtaka með höfuðstöðvar í Osló.