Forsætisráðherra Armeníu sakar Asera um óhæfuverk

epa10200328 Prime Minister of the Republic of Armenia, Nikol Pashinyan delivers his address during the 77th General Debate inside the General Assembly Hall at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 22 September 2022.  EPA-EFE/Peter Foley
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, sakaði Asera um óumræðileg óhæfuverk í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Átök blossuðu upp milli ríkjanna í síðustu viku þar sem næstum 300 létu lífið.

Pashinyan sagði sterkar vísbendingar uppi um að Aserar hefðu beitt pyntingum og limlest handtekna eða þegar látna hermenn. Hann staðhæfði einnig að Aserar hefðu stundað aftökur án dóms og laga, beitt stríðsfanga harðræði og svívirt lík.

Forsætisráðherrann segir athæfið afleiðingu þess haturs í garð Armena sem aserísk stjórnvöld hafi innprentað í almenning undanfarna áratugi.

„Andvana líkamar kvenkyns hermanna voru afskræmdir og steigurlátir aserskir hermenn mynduðu ósómann,“ sagði Pashinyan meðan Jeyhun Bayramov, utanríkisráðherra Aserbaísjan, hlýddi sviplaus á.

Hann ávarpar allsherjarþingið um helgina. Pashinyan sakaði Asera um að hafa gert árásir á borgaraleg skotmörk langt inn í landi. Hann sagði á áttunda þúsund manna vera heimilislaus og að þrír almennir borgarar hefðu látist.

Átökin ekki landamæradeilur

Pashinyan sagði líka af og frá að átökin á dögunum væru landamæradeilur, heldur hreinræktuð árás Asera á fullveldi og landsyfirráð Armena. Samkomulag náðist um vopnahlé með milligöngu Rússa. 

Ríkin tvö hafa lengi átt í erjum, þá sérstaklega vegna héraðsins Nagorno-Karabakh. Íbúar þess eru flestir af armensku bergi brotnir, en svæðið er undir stjórn Asera.

Leiðtogar Aserbaísjan og Armeníu hétu því í apríl að stuðla að friði milli ríkjanna en í lok mars blossuðu að nýju upp deilur ríkjanna um Nagorno-Karabakh. 

Síðast urðu verulega mannskæð átök á svæðinu haustið 2020 þegar ríkin áttu í sex vikna stríði. Yfir 6.500 féllu í átökunum. Rússar áttu þá einnig þátt í að stilla til friðar.