Færeyingar deila mat með löndum sínum sem líða skort

epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Ýmsar hjálparstofnanir í Færeyjum greina aukna þörf fyrir margvíslega aðstoð vegna hækkandi framfærslukostnaðar. Einkum er þörfin mikil fyrir mat og nú geta þeir sem eiga nóg deilt með þeim sem minna hafa.

Rauða krossinum hefur borist margfalt fleiri beiðnir um framlög það sem af er þessu ári en áður var. Einkum er óskað matvælaaðstoðar af ýmsu tagi segir Bjørk Wiggins, samskiptastjóri Rauða krossins í samtali við KVF, en einnig vanti marga klæði og skæði.

Einnig hefur Herbergið í Þórshöfn, sem er athvarf kirkjunnar fyrir heimilislausa, greint frá fjölgun beiðna um liðsinni. Nú hefur verið sett á laggirnar Facebook-síða sem ætluð er hvort tveggja þeim sem vilja gefa mat og aðrar vörur og þeim sem slíkt þurfa að þiggja. 

Tanya Møller, stjórnandi síðunnar „Yvirskot til tín“ eða Umframbirgðir fyrir þig, segir mikilvægast að fólk gefi það sem það má missa og þau sem vantar eitthvað fái það sem þarf.

Hún hvetur fólk fyrst og fremst til að vera vingjarnlegt og kurteist hvert við annað. Flestir sem leita aðstoðar eru á Þórshafnarsvæðinu en þó segir Møller alla velkomna. 

„Ástæða þess að þig langar að gefa kann að vera sú að þú eldaðir meira en þurfti eða þig langar bara að aðstoða einhvern sem hefur ekki efni á að kaupa mat,“ segir hún.

„Kannski viltu ekki að maturinn renni út á tíma í ísskápnum áður en nokkur getur notið hans og mögulega var afgangur eftir síðustu veislu,“ segir Tanya Møller.