Vonar að mótmælin í Íran leiði til breytinga

22.09.2022 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Lenya Rún - Aðsend
Ekkert lát er á mótmælum í Íran gegn stjórnvöldum, sem lokuðu fyrir net- og símasamband á vissum stöðum í dag. Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, sem er stödd í Kúrdistan, segir mannréttindasamtök og mótmælendur telja að mun fleiri hafi farist í mótmælunum en opinberar tölur gefi til kynna. 

Mótmælin hófust í héröðum Kúrda í norðurhluta Íran fyrir viku eftir að tuttugu og tveggja ára gömul kona, Masha Amini, lést í haldi siðgæðislögreglu sem handtók hana því slæða sem hún bar þótti ekki hylja hárið nógu vel. Hún var Kúrdi og var á ferðalagi í höfuðborg Írans, Teheran. 

Samkvæmt opinberum tölum hafa sautján manns beðið bana í mótmælunum, þar af fjórir lögreglumenn. Lenya Rún er stödd í Kúrdistan í Norður-Írak að heimsækja vini og fjölskyldu og fylgist náið með þróun mála.

Mótmælin ekki að fjara út

„Í borgum þar sem mótmælin eru sem mest þá er algjörlega búið að takmarka síma og netsamband og í sumum borgum þá er bara búið að takmarka
einhver öpp eins og Instagram og Whatsapp. En ég hef hins vegar heyrt beint frá fólki og mannréttindasamtökum í Íran að fjöldi látinna sé
miklu hærri en opinberar tölur gefa til kynna. Það er ekki að sjá að mótmælin séu að fjara út en það er mín von að þau leiði til breytinga.“

Mótmælendur eru á öllum aldri og mótmælin beinast fyrst og fremst gegn stjórnvöldum. Lenya Rún segir fólk komið með nóg af áratugalangri kúgun. „Mótmælendur vilja frelsi til að velja hvort að konur gangi með slæður eða ekki. Þetta snýst ekki um að vera andsnúinn slæðum eða neitt svoleiðis. Þetta snýst um frelsið að konur fái að klæða sig eins og þær vilja.“

epa10197108 Kurdish women hold veils and a poster depicting deceased Mahsa Amini during a protest against the killing of women at Martyrs Square in Beirut, Lebanon, 21 September 2022. Mahsa Amini, a 22-year-old Iranian woman, was arrested in Tehran on 13 September by the morality police, a unit responsible for enforcing Iran's strict dress code for women. She fell into a coma while in police custody and was declared dead on 16 September.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ströng lög gilda um klæðaburð og sérstök lögregla fylgist með konum og eru þær ýmist handteknar eða sektaðar þyki þær ekki sómasamlega klæddar. Lenya Rún kveðst telja að forræðishyggjan og lagasetning byggð á trúarbrögðum, sem hefur farið út í öfgar skili engu nema reiði borgaranna. „Væntanlega verður einhver bylting eftir nokkur ár.“

Yfirvöld segja að Amini hafi látist vegna hjartaáfalls en fjölskylda hennar telur að hún hafi verið pyntuð til bana. Frásagnir vitna eru á þá leið. Yfirvöld rannsaka andlátið og búist er við niðurstöðum eftir tvær til þrjár vikur. 

Vilja liðsinni við að halda baráttunni á lofti

Kúrdar hafa margir sett sig í samband við Lenyu Rún á samfélagsmiðlum og beðið um aðstoð við að halda baráttu fyrir mannréttindum í Íran á lofti og vekja athygli á henni utan landsins. Hún ætlaði að halda heim til Íslands í dag en ákvað að dvelja lengur ytra vegna mótmælanna.