„Viljum komast í lokakeppnina“

Mynd: Stefán Jón / RÚV

„Viljum komast í lokakeppnina“

22.09.2022 - 13:04
21 árs landslið Íslands í fótbolta leikur á morgun fyrri leik sinn við jafnaldra sína frá Tékklandi í umspili um laust sæti í lokakeppni EM. Evrópumótið verður haldið í Georgíu og Rúmeníu. Íslenskt 21 árs landslið hefur tvisvar áður komist í lokakeppni EM, 2011 og 2021.

Fyrri leikurinn verður klukkan 16:00 á morgun á Víkingsvelli. Þar æfði íslenska liðið í hádeginu og leikmenn og þjálfari voru til viðtals. „Þetta eru tveir risa leikir og við viljum komast í lokakeppnina. En við reynum að halda okkur á jörðinni og hvetja okkur vel áfram inn í þennan leik,“ sagði Ísak Snær Þorvaldsson leikmaður 21 árs landsliðsins sem hefur farið á kostum með Breiðabliki í Bestu deildinni í sumar.

„Helst viljum við auðvitað vinna þennan leik með sem mestum mun og fara með góða markatölu í útileikinn. En það er auðvitað betra að spila heimaleiki með aðdáendur hér. Þannig ég hvet sem flesta til að mæta á morgun. En svo lengi sem við spilum vel og náum sigri yrðum við sáttir,“ sagði Ísak Snær.

Mynd: RÚV / RÚV
Viðtal við Davíð Snorra Jónasson landsliðsþjálfara.

En hvað þarf að gerast til að Ísland vinni Tékkland í leiknum á morgun? „Við þurfum að sýna okkar gildi. Við þurfum að vera góðir í einföldu hlutunum og hafa það hugarfar að við ætlum að sækja þetta EM sæti,“ sagði Davíð Snorri Jónasson landsliðsþjálfari 21 árs landsliðsins þegar hann ræddi við RÚV í Víkinni í dag.

„Tékkarnir eru með mjög gott lið og spilaði vel í riðlinum. Þeir eru kraftmiklir og ég gæti alveg trúað á því að þeir pressi okkur hérna á morgun. Þeir geta blandað sóknarleiknum sínum, geta bæði spilað langt og líka stutt,“ sagði Davíð Snorri sem segir helmingslíkur á því að Ísland hafi betur í einvíginu við Tékka og komist í lokakeppni EM. Seinni leikur liðanna verður svo í Tékklandi klukkan 16:00 á þriðjudag.

Refsing fyrir að segja „sko“

Það er greinilega létt yfir mönnum í herbúðum íslenska landsliðsins því áður en viðtalið við Davíð Snorra hófst ljóstraði hann því upp að leikmenn liðsins hefðu bannið honum að nota orðið „sko“ í viðtölum. Annars hlyti hann refsingu. Þrátt fyrir afar góða tilraun laumaðist „sko“ tvisvar með í svörum Davíðs í öllu viðtalinu eins og sjá má hér í klippinu fyrir neðan, sem vitanlega er klippt saman á léttu nótunum.

Mynd: Stefán Jón / RÚV
Bannað að segja „sko.“