Talið að mennirnir hafi verið að skipuleggja hryðjuverk

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Fjórir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir af sérsveit Ríkislögreglustjóra í gær vegna gruns um skipulagningu hryðjuverka. Tveir mannanna voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar í viku en hinn í tvær vikur. Þeir eru einnig grunaðir um umfangsmikla vopnaframleiðslu með notkun þrívíddarprentara. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi Ríkislögregslustjóra sem fram fór síðdegis í dag. Útsending RÚV frá fundinum í heild sinni er í spilaranum hér að ofan.

Forsvarsmenn Ríkislögreglustjóra segja að íbúar landsins séu öruggari nú þegar búið er að handtaka mennina. Talið er að búið sé að „ná utan um“ það mál sem var til rannsóknar. Því sé ekki talið að hætta steðji að almenningi í landinu. Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkrar vikur. Margt bendir til þess að aðgerðir sérsveitarinnar í gær þyldu enga bið.

Mennirnir voru handteknir bæði í Holtasmára í Kópavogi og síðan í iðnaðarhúsnæði í Mosfellsbæ í gær.

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Frá vettvangi í Mosfellsbæ.

Árásirnar hefðu mögulega beinst gegn Alþingi

Mennirnir voru grunaðir um að skipuleggja árásir á stofnanir íslenska ríkisins. Ekki hefur verið gefið upp hvaða stofnanir er um að ræða. 

„Það má ætla það,“ svaraði Karl Steinar spurningu Sunnu Karenar Sigurþórsdóttur, fréttamanns RÚV, um hvort álykta mætti að árásirnar hefðu átt að beinast gegn Alþingi og lögreglu. Gripið var til öryggisráðstafana á meðan handtökum fjórmenningana stóð. Karl Steinar Valsson vildi ekki greina nánar frá þeim.

Forsvarsmenn Ríkislögreglustjóra vildu heldur ekki segja neitt um hvort mennirnir fjórir séu í slagtogi við öfgasamtök.

Fréttin hefur verið uppfærð. Leiðrétt var hversu margir eru í gæsluvarðhaldi.