Segir Pútín svívirða stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna

epa10199323 US Secretary of State Antony Blinken speaks during a high-level United Nations Security Council meeting about the ongoing conflict in Ukraine on the sidelines of the General Debate of the UN General Assembly at UN Headquarters in New York, New York, USA, 22 September 2022.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti á fundi öryggisráðsins áhyggjum af væntanlegum atkvæðagreiðslum Rússa á hernumdum svæðum í Úkraínu um innlimun í Rússland. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði Pútín Rússlandsforseta svívirða stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fulltrúar allra ríkja með sæti í öryggisráðinu, Rússar þar á meðal, settust við fundarborðið í New York í Bandaríkjunum í dag. Þar var innrás Rússa í Úkraínu helsta umræðuefnið. 

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, gaf tóninn og sagði síðustu mánuði hafa einkennst af gríðarlegri þjáningu og gjöreyðileggingu. Hann fordæmdi sprengjuárásir Rússa á Úkraínu, sem hefðu leitt til dauða fjölda almennra borgara, og kallaði eftir rannsókn á hinu megna ofbeldi.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, talaði á sömu nótum. Hann sagði ákvörðun Pútíns um að hella olíu á eldinn núna sýna hversu litla virðingu hann bæri fyrir stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Vísaði Blinken þar til tilkynningar Pútíns um herkvaðningu í Rússlandi.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sat við fundarborðið og hafnaði öllum ásökunum um stríðsglæpi. Hann sagði Bandaríkin og bandamenn þeirra hylma yfir mannréttindabrot Úkraínustjórnar í slagtogi við mannréttindasamtök.

Þórgnýr Einar Albertsson