Segir Katrínu hafa verið óheiðarlega í samskiptum

22.09.2022 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tónlistarkonan Björk segir Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hafa verið óheiðarlega í samskiptum við sig fyrir fund á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 2019. Björk talaði um málið í Víðsjá á Rás 1.

Björk sagði í viðtali við breska dagblaðið The Guardian í síðasta mánuði að þær Greta Thunberg, aðgerðarsinni í loftslagsmálum, hefðu verið með samkomulag við Katrínu um að hún myndi lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum á viðburði 2019. Í greininni kom ekki fram hvaða viðburður það hefði verið. Þær Thunberg vonuðust til að það myndi setja þrýsting á stjórnvöld hérlendis um aðgerðir í loftslagsmálum. Þegar Katrín átti að gefa út yfirlýsinguna hefði hún hætt við á seinustu stundu að sögn Bjarkar. 

Björk segir frá því í Viðsjá að hún hafi verið í samskiptum við Katrínu fyrir ráðstefnuna og varað hana við því að þær Thunberg ætluðu að skora á forsætisráðherra Norðurlanda um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Fundurinn yrði uppstilltur gegn Katrínu að miklu leyti vegna þessa. Björk segist hafa boðið Katrínu að vera með þeim Thunberg í að skora á stjórnvöld á Norðurlöndum að lýsa yfir neyðarástandi og segja að stjórnvöld hér á landi væru að vinna í því. 

„Það sem mér finnst kannski smá óheiðarlegt sem Katrín gerði, er að hún hefði kannski átt að segja þarna: „Nei þetta er aðeins of djarft fyrir mig, við stjórnvöld ætlum ekki að vera með“ en það sem hún sagði var „Þið þurfið ekki að halda þennan blaðamannafund því ég ætla að lýsa þessu yfir hvort eð er í ræðunni minni hjá Sameinuðu þjóðunum.“

Björk segist hafa treyst Katrínu og hætt við fundinn. „Síðan beið ég eftir ræðunni og hún sagði ekki neitt.“

Nánar verður rætt við Björk í Víðsjá klukkan 16:05 í dag.