Rússneski herinn hefur beðið hnekki

Rússneskir hermenn á vakt í Kherson-borg, höfuðborg samnefnds héraðs - Mynd: epa / epa
Rússneski herinn er laskaður eftir stríðsreksturinn í Úkraínu, það hefur gengið á vopnabúrið og mannfallið hefur verið töluvert. Rússnesk stjórnvöld segja að um sex þúsund hermenn þeirra hafi dáið í Úkraínu í ár en aðrir, þar á meðal bandarísk varnarmálayfirvöld, telja að þeir gætu verið næstum þrisvar sinnum fleiri. Kvaðning 300 þúsund manna varaliðs í Rússlandi endurspeglar vonda stöðu hersins að mati Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra og sérfræðings í öryggis og varnarmálum.

Því fer fjarri að sjái fyrir endann á bardögum en þó telur Albert líklegt að úr þeim dragi þegar haustar vegna ytri aðstæðna. Yfirlýsingar Pútíns um kjarnavopnin voru frekar almennt orðaðar og ekki meiri hætta á að þeim verði beitt en áður. Hann telur ekki að kvaðning varaliðsins breyti miklu um gang stríðsins á næstu vikum. Það taki líka langan tíma að koma varaliðum til Úkraínu. 

Zelensky trúir því ekki að heimurinn standi hjá

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, sagðist ekki trúa því að Vladimir Pútín, forseti Rússlands, beitti kjarnorkuvopnum. Hann brást þar við ávarpi Pútíns sem sagði vesturveldin reyna að kúga Rússa til hlýðni með hótunum um kjarnorkuvopn en vindhaninn gæti snúist og hótunin beinst í átt að þeim. Zelensky segist ekki leggja trú á að heimurinn standi aðgerðalaus hjá og leyfi Pútín slíkt. Rússlandsforseti vilji drekkja Úkraínu í blóði, líka eigin hermanna.

Pútín tilkynnti líka að 300 þúsund manna varalið yrði sent til Úkraínu. Þetta er talið merki um stigmögnun ástandsins og jafnvel örvæntingu af hálfu Pútíns. Þessi herkvaðning á ekki eftir að breyta miklu um gang stríðsins á næstu vikum að mati Alberts. Hún sé merki um bága stöðu rússneska hersins sem hafi misst marga menn og vopn. Herinn hafi teflt fram vel þjálfuðum sveitum og sínum bestu vopnum en ekki tekist að ná þeim tökum í Úkraínu sem að var stefnt.

 
Það er hugsanlegt að til almennari herkvaðningar komi í Rússlandi en þó frekar ólíklegt. Á næstunni á að halda atkvæðagreiðslur í fjórum héröðum í Úkraínu, Donetsk, Luhansk, Kerson og Saporitsíja um hvort íbúar þar vilji sameinast Rússlandi. Albert tekur undir að það sé að vissu leyti sambærilegt við atkvæðagreiðslu sem efnt var til áður en Rússar innlimuðu Krímskaga. Eftir þá atkvæðagreiðslu samþykkti rússneska þingið lög þar sem Krímskagi var talinn til Rússlands og svipað gæti gerst. Það sé þó ekki mikið að marka atkvæðagreiðslur á við þessar. 

Afstaða Kínverja skiptir Rússa miklu

Albert vék að því að dregið gæti úr átökum vegna ytri aðstæðna. Það vakti athygli þegar kínversk stjórnvöld, sem hafa  verið á sveif með Rússum, hvöttu til vopnahlés og friðarviðræðna um Úkraínu. Mjög er rætt um stríðið í Úkraínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið er í New York þessa dagana en Albert býst ekki við að þær ræður breyti miklu.