Kannanir benda til sigurs Meloni á Ítalíu

22.09.2022 - 20:01
Giorgia Meloni, leiðtogi Fratelli d'Italia, Bræðralags Ítalíu
 Mynd: EPA-EFE-ANSA
Skoðanakannanir á Ítalíu benda til þess að bandalag hægri, og hægri-öfgaflokka nái völdum í þingkosningunum á sunnudag. Verði það niðurstaðan, er líklegt að kona verði í fyrsta skipti forsætisráðherra á Ítalíu.

Meloni leiðir flokkinn Fratella d´Italia - Bræður Ítalíu - flokk sem á sér rætur í hreyfingu fasista; er af mörgum talinn vera öfgahægriflokkur. Meloni fer ekki leynt með skoðanir sínar, til dæmis á innflytjendum. 

„Giorgia Meloni, sem er þessi kona sem þú ert að tala um, og er í forsvari fyrir Bræður Ítalíu, eða Fratella d´Italia, sem er einmitt mjög popúlískt nafn og leiðir kosningabandalag sem samanstendur af þessum flokki, Lega, sem Salvini fer með og er svona hægri-popúlistaflokkur, og svo gamalkunnugur Berlusconi, með sitt Forza Italia,“ segir Michele Rebora stjórnmálafræðingur.

Flokkur Meloni er núna með um tuttugu og fimm prósenta fylgi samkvæmt könnunum - bandalag hennar gæti náð meirihluta á þinginu sem þýðir að hún verður líklega fyrsta konan sem verður forsætisráðherra á Ítalíu. 

„Það sem einkennir þessar kosningar er ákveðin vantrú, ákveðin fjarlægð sem hefur farið vaxandi síðustu ár og áratugi gagnvart pólitíkinni almennt. Til dæmis er spáð að kjörsókn verði með þeim lægstu sem hefur verið; sumir tala um jafnvel rétt yfir sextíu prósent. Og af þeim sem eru spurðir, eru um fjörutíu prósent sem segjast vera óákveðin, tveimur vikum fyrir kosningar, sem er líka mjög áhugavert og í rauninni nokkuð óhefðbundið á Ítalíu,“ segir Michele.

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV