Kanna tengsl við erlenda öfgahópa

Tveir íslenskir karlmenn eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um að undirbúa fjöldaárásir hér á landi, sem lögregla rannsakar sem tilraun til hryðjuverka. Heimildir fréttastofu herma að árásirnar hafi átt að beinast gegn lögregluyfirvöldum og Alþingi. Lögregla ítrekar að samfélaginu sé ekki hætta búin. 

Fjórir menn voru handteknir af sérsveit ríkislögreglustjóra í Kópavogi og Mosfellsbæ vegna málsins í gær. Tveir þeirra voru leiddir fyrir dómara í dag þar sem annar var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og hinn í vikulangt varðhald. Lögregla hefur ekki viljað upplýsa hvers vegna hinum tveimur var sleppt. Mennirnir eru allir íslenskir og á þrítugsaldri. 

Lögregla varðist allra fregna en boðaði síðan til blaðamannafundar klukkan þrjú í dag þar sem upplýst var um að málið væri eitt það alvarlegasta í sögu landsins. 

„Tilefni þessa fundar er uppruninn í því að aðgerðir sem lögregla var með í gær þar sem aðilar voru handteknir í tengslum við rannsókn að ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum,“ sagði Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, við upphaf fundarins.

„Við rannsóknina komu fram upplýsingar um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess. Þegar sá grunur var fram kominn var ríkislögreglustjóra gert viðvart,“ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Rannsóknin er yfirstandandi og er viðamikil og búið að framkvæma húsleitir á níu stöðum, fjórir handteknir, búið að haldleggja tugi vopna og þúsundir skotfæra eins og komið hefur fram. Tölvur, síma og stafræna miðla aðra.“

Ný og stórhættuleg tækni

Stór hluti vopnanna sem fannst var þrívíddarprentaður, sem er tækni sem hefur færst verulega í vöxt víða um heim. Síðast í febrúar var skotárás framin í miðbæ Reykjavíkur með þrívíddarprentuðu skotvopni. Mennirnir eru grunaðir um viðamikla framleiðslu vopna og sölu á þeim. Þá herma heimildir fréttastofu að árásirnar hafi átt að beinast gegn lögreglu og Alþingi. 

„Þetta eru ýmsar stofnanir ríkisins eða stofnanir sem þarna eru undir. Það er tekið fram í tilkynningunni frá ykkur að ríkislögreglustjóri annist mál sem varði til dæmis brot gegn stjórnskipan ríkisins eða æðstu stjórnskipan,“ sagði Karl Steinar. 

Má þá ekki ætla að þetta sé hugsanlega Alþingi eða jafnvel lögreglan?

„Jú það má alveg ætla það.“

Kanna tengsl við erlenda öfgahópa

Óvíst sé hins vegar hvaða annarlegu hvatir bjuggu að baki skipulagningunni og sökum rannsóknarhagsmuna telji lögregla ekki rétt að upplýsa um hvar eða hvenær fremja átti árásirnar. 

„Rannsóknin lýtur meðal annars að því, að upplýsa það, hver var tilgangurinn með því, þessari áætlun sem var í gangi,“ sagði Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá Héraðssaksóknara.

Fram kom á fundinum verið væri að skoða möguleg tengsl mannanna við öfgasamtök og að litið væri sérstaklega til Norðurlandanna í því samhengi. Þá hafi hættustigi að öllu leyti verið aflýst. 

„Ég legg áherslu á að fagleg vinnubrögð lögreglu og ákærenda, öflun mikilvægra upplýsinga og greininga og rétt miðlun varð til þess að komið var í veg fyrir hugmyndir um beitingu vopna gegn borgurum landsins og mikilvægum stofnunum þess yrðu ekki að veruleika. Það er mikilvægt að taka skýrt fram og ítreka það sem fram hefur komið hér áður að það er mat okkar að ekki sé yfirvofandi hætta í samfélagi okkar um beitingu vopna gegn fólki eða stofnunum,“ sagði Grímur Grímsson.

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV