Íslenskt tónskáld skrifar undir hjá útgáfurisa

Mynd: RÚV / RÚV

Íslenskt tónskáld skrifar undir hjá útgáfurisa

22.09.2022 - 09:00

Höfundar

Skáldskapur Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi veitti tónskáldinu Gabríel Ólafs innblástur fyrir nýjustu plötu hans, Solon Islandus. Gabríel skrifaði nýverið undir samning við Decca Records, dótturfélag útgáfurisans Universal Music Group.

Þrátt fyrir ungan aldur, hefur Gabríel Ólafs náð miklum frama sem tónskáld á síðustu árum. Hann var áður á samningi hjá útgáfufélaginu One Little Independent sem gaf út plötu hans, Absent Minded, 2019. Henni hefur verið streymt yfir 50 milljón sinnum. Velgengni plötunnar vakti athygli Decca Records, þar sem fyrir eru á mála stórnöfnin Andrea Bocelli, Diana Ross og Ronan Keating.

,,Þetta er stærsti vettvangur sem þú getur fengið, þeir eru með skrifstofur í 70 löndum og eru langstærstir í klassík og jazzi þannig að fyrir mig er þetta mikill heiður. Ég er sjálfur vínylsafnari og að sjá Decca lógoið á eigin plötu er rosa kúl og skemmtilegt."

Innblásinn af ljóðum Davíðs Stefánssonar

Gabríel segist hafa sótt innblástur í ljóð Davíðs Stefánssonar fyrir nýjustu plötu sína, Solon Islandus. Í sumum lögum má heyra ljóðalestur leikaranna Arnars Jónssonar og Helgu Jónsdóttur á verkum Davíðs. 

„Foreldrar mínir lásu alltaf fyrir mig verk Davíðs, þá sérstaklega Svartar fjaðrir. Svo var það árið 2019 að ég sá einmitt að hann gaf út Svartar fjaðrir árið 1919 á mínum aldri. Hundrað árum seinna fattaði ég að það væri gaman að gera tónverk í samtali við ritverkið vegna þess að ljóðin hans eru dramatísk oft og tilfinningarík.“

Tónlist Gabríels er að finna á fjölmörgum vinsælum lagalistum á streymisveitum, sem hann segir að hafi átt þátt í að koma honum fram á sjónarsviðið. 

„Það er stærri áheyrendahópur fyrir þessa músík í dag, það er ekki spurning. Sérstaklega áður en streymisveiturnar komu, þá held ég það hafi verið miklu erfiðara fyrir einhvern eins og mig að gefa út músík.“

Stofnaði upptökuhljómsveit í Hörpu

Ásamt því að sinna eigin sköpunargáfu stofnaði Gabríel nýverið framleiðslufyrirtækið og upptökuhljómsveitina Reykjavík Recording Orchestra, sem er til húsa í Hörpu.

„Það sem við höfum gert er að tengja saman þrjá helstu sali Hörpu, Eldborg, Norðurljós og Kaldalón. Þessir salir hafa ekki verið tengdir áður til upptöku. Okkur fannst það algjört möst. Ég og kollegar mínir, meðal annars Bergur Þórisson upptökumaður, við höfum verið að taka upp áður en við stofnuðum fyrirtækið. Okkur finnst svo frábært sánd, það er heimsklassahljómur í sölum Hörpu. En við höfum verið að framleiða fyrir stór erlend framleiðslufyrirtæki og það hefur gengið mjög vel.“

Tengdar fréttir

Tónlist

„Ég hef aldrei verið sérstaklega athyglissjúkur“

Klassísk tónlist

19 ára tónskáld með plötusamning